Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 11

Dagbók bæjarstjóra vikuna 17.-23. mars, í 11. viku í starfi.
Eiginlega byrjaði þessi vika á sunnudagskvöldi í síðustu viku en þá sótti ég aðalfund Hofsú (Hollvinasamtök Félagsheimilisins í Súgandafirði).
Hollvinasamtökin voru stofnuð árið 2008 en þá lá félagsheimilið undir skemmdum og var í umræðunni að rífa það. Heimafólk ákvað að stofna Hollvinasamtök sem eiga 15% í húsinu, ásamt því að sjá um daglegan rekstur þess. Þá eiga Ungmennafélagið og Kvenfélagið sín hvor 15% og Ísafjarðarbær á 55%.
Mánudagurinn var annasamur, bæjarráð og strax í kjölfarið fundur með Þorgerði Katrínu, utanríkisráðherra. Málin sem voru til umræðu snerust um það sem er helst í deiglunni þessa dagana, af innlendum málum innviðagjald, flugsamgöngur og reglugerð um strandveiði. Þá voru utanríkismál rædd.
Á fundi með Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra, Maríu Rut alþingismanni og þeirra fylgdarfólki. Bæjarráð ásamt Jóni Páli og Braga (Bolungarvík og Súðavík) sátu fundinn.
Ég átti góðan morgunverðarfund með Guðmundi Fertram og Hálfdáni Bjarka hjá Kerecis. Fórum yfir ýmis mál sem snúa að bænum, fyrirtækinu og samfélaginu almennt.
Þá var mér boðið á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þar sem rædd voru málefni áætlanaflugs til Ísafjarðar, auk mín voru Gylfi og Aðalsteinn og Sirrý frá Vestfjarðastofu á fundinum.
Fór í stutt viðtal á Zoom hjá blaðamanni Reuters sem er að skrifa grein um ferðaþjónusutu og meðal annars um gjaldtöku á skemmtiferðaskip og þá hvaða áhrif það gæti haft á ferðaþjónusutuna og sveitarfélagið.
Sat kynningarfund á handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar.
Á bæjarstjórnarfundi vikunnar var þar helst að staðfestar voru úthlutanir á lóðum á Suðurtanga en það er virkilega ánægjulegt að eftirspurn er eftir atvinnulóðum og augljóst að það er hugur í fólki.
Stór hluti þátttakenda á þingmannafundinum.
Smá tæknibras á Óla Adolfs á þingmannafundinum.
Arna Lára, Stefán Vagn og Ingibjörg Davíðs, þingmenn Norðvesturskjördæmis.
Fulltrúar sveitarfélaganna á Vestfjörðum áttu góðan fund með þingmönnum kjördæmisins á miðvikudag en fundurinn var haldinn í Smiðju, skrifstofuhúsnæði Alþingis. Þar gafst tækifæri til að ræða málefni Vestfjarða, samgöngumál eins og vetrarþjónusta á vegum, viðhald, jarðgöng, flugsamgöngur, málefni ferðaþjónustunnar, fiskeldis og margt fleira kom til tals.
Nammibar á landsþingi, sló í gegn hjá sumum, þar á meðal mér.
Ég fór og spurði Ásthildi Lóu út í hvað væri að frétta af fjármögnun verknámshúsa (fimm eru í bígerð en gengur hægt að mati margra).
Tillagan okkar samþykkt á landsþinginu.
Eftir fundasetu fimmtudagsins var skellt í eina rándýra sjálfu.
Á fimmtudag var Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar voru samgöngu og menntamál rædd auk fjármála sveitarfélaga og starfsemi Jöfnunarsjóðs. Það var gaman að hitta allt fólkið á landsþinginu og aðalfundi Lánasjóðs sveitarfélaga sem var síðar um daginn, mjög hressandi. Á landsþinginu var lögð fram tillaga frá 12 bæjar- og sveitarstjórum varðandi flugvöllinn í Vatnsmýri. Ég er afar ánægð með þessa tillögu en það voru alveg átök á þinginu um hana en það hafðist að fá hana samþykkta.
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga fer yfir ársreikning sjóðsins.
Ég tók mér svo bara frí á föstudag, nýtti daginn í að útrétta í Reykjavík, nýja uppáhaldsbúðin mín þar er Innigarðar. Það er kominn vorhugur í mig og fer að líða að því að maður fari að sá fyrir kryddi og grænmeti. Ætla að setja upp lítið gróðurhús í vor til að geta séð okkur fyrir grænfóðri.
Búin að hitta fullt af ættingjum og vinum síðustu daga og kvöld, alveg bráðnauðsynlegt að rækta vináttuna.
Framundan er annasöm vika, allskonar fundir, heimsóknir, menning (leiksýning MÍ og bókmenntahátíð á Flateyri) ….. og hlaup