Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 10

Dagbók bæjarstjóra dagana 10. – 16. mars 2025, í 10. viku í starfi.
Það var lumbra í mér þessa viku, ekki nógu mikil til að vera „alvöru veik“ en nógu mikil til að úthaldið væri ekki upp á sitt besta.
Í bæjarráði á mánudag var ákveðið að senda inn fimm umsóknir í Fiskeldissjóð. Fiskeldissjóður auglýsti til úthlutunar úr sjóðnum kr. 456.100.000 á þessu ári en sveitarfélög þar sem sjókvíaeldi er stundað voru hvött til að sækja um. Nú tekur við vinna úthlutunarnefndar að fara yfir innsendar umsóknir en til úthlutunar styrkja er horft til verkefna sem snúa að styrkari samfélagsgerð, uppbyggingu innviða, loftslagsmarkmiða og umhverfisverndar, tengingu við sjókvíaledi og nýsköpun. Það ætti að liggja fyrir eftir um það bil mánuð hvaða verkefni hljóta brautargegni innan sjóðsins.
Átti fjölmarga fundi í vikunni, til dæmis ræddum við um „staðaraugu“ en það er verkefni sem er í undirbúningi, að huta til þó hafið en þetta snýr að því að í byggðarkjörnunum séu tengiliðir við áhaldahús bæjarins og ábyrgðamenn fasteigna.
Kíkti í kaffi hingað í vikunni.
Ég kíkti í morgunkaffi til Stein og Daníels í Arctic fish og fékk innsýn inn í ýmsar áskoranir fyrirtækisins.
Við Maggi (forseti Bæjarstjórnar) funduðum með Shiran formanni Hvetjanda og fegnum góða kynningu á sjóðnum.
Ég sat fund ásamt formanni, framkvæmdarstjóra og starfsmanni Vestfjarðastofu með forsvarsmanni Norlandair, fórum yfir stöðuna í málefnum áætlanaflugs á Ísafjörð. Þetta mál er eitthvað sem við munum halda á lofti því að um er að ræða stórt hagsmunamál landshlutans en sem dæmi þá er flugið á Ísafjörð einu almenningssamgöngurnar hingað til norðanverðra Vestfjarða.
Við Margrét, rektor Háskólans á Bifröst.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst heimsótti mig í vikunni með áhugavert erindi sem ég kynni síðar en það snýr að tilraunaverkefni sem þau eru að vinna með nokkrum evrópskum háskólum.
Það var fundur í svæðiskipulagsnefnd í vikunni, hann fór fram á Patreksfirði, við Ástrós bæjarfulltrúi í Bolungarvík vorum samferða á fundinn. Á leiðinni yfir Dynsuna sáum við ferðafólk sem hafði ætlað sér að aka fram hjá stöðvunarpóstum niður í Trostansfjörð, sátu þar pikkföst í snjóskafli. Ég verð að segja það að ég á stundum ekki til orð til að lýsa hvað mér finnst um svona hátterni. Fundurinn á Patró var mjög góður og það er nú einhvern veginn svo að svona staðfundir eru oft á tíðum mun skilvirkari en fjarfundur, allavega er virkara samtal og auðveldara fyrir fólk að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Þrjár samfylkingarkonur.
Mér var boðið á aðalfund Samfylkingarfélagsins, kynnti mig og sagði frá því helsta sem er í deiglunni hjá bænum. Umræður voru góðar en meðal annars var rætt um komandi sveitarstjórnarkosningar sem eru eftir rétt um 14 mánuði. Tíminn er fljótur að líða og því ekkert að vanbúnaði að fara að huga að framboðum. Ætla að taka það skýrt fram að ég er ekki gengin í Samfylkinguna en ég frétti að það væri ein „heit“ saga í bænum.
Sveitarstjórnarráð VG (Vinstri græn) fundaði eitt kvöldið í vikunni, þar voru sömuleiðis rædd framboðsmál, þannig að ég finn að fólk er svona byrjað að undirbúa sig.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.
Spekingar spjalla um menntamál á afmælishátíð Háskólaseturs Vestfjarða.
Afmælisterta í afmæli Háskólaseturs Vestfjarða.
Á föstudaginn sótti ég aðalfund Háskólaseturs Vestfjarða en það var stofnað 2005 og er því 20 ára. Háskólasetrið var stofnað að tilstuðlan Vestfirðinga, með það að markmiði að efla Vestfirði. Háskólasetur Vestfjarða er minnsta stofnun sem starfar á háskólastigi á Íslandi, sem býður upp á tvær meistaranámsleiðir í samstarfi við Háskólann á Akureyri um fullgildingu náms. Áhrif Háskólasetursins á samfélagið eru ótvíræð. Skólinn hefur eflt atvinnulíf og byggð á svæðinu, meðal annars með rannsóknum sem hafa nýst í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og nýsköpun. Nemendur og fræðafólk hafa tekið virkan þátt í samfélaginu, og margir þeirra hafa tekið þá ákvörðun að setjast að á Vestfjörðum til lengri tíma. Þetta er afar dýrmætt fyrir samfélagið, þar sem ný þekking og reynsla bætist við og stoðir byggðarinnar styrkjast.
Í tilefni afmælisins var opið hús og mikið húllumhæ. Við birtum stutta grein á heimasíðu bæjarins, afmæliskveðju til Háskólaseturs Vestfjarða.
Þarna á bakvið var eitthvað verið að filma.
Síðustu vikur hefur kvikmyndagerðarfólk verið áberandi í bænum. Tilefnið er að nú standa yfir tökur á sjónvarpsþáttaseríu byggða á bók Satu Ramu, Hildur. Þau sem vinna að verkefninu eru mjög dugleg að nýta sér þá þjónustu sem í boði er á svæðinu, til að mynda líkamsrækt, sund, snyrtistofur, verslun, veitingastaði og svo framvegis. Sannarlega lyftistöng og skemmtilegt fyrir samfélagið.
Eiríkur les upp úr nýju bókinni. Ljóðið sem hann las var „Borgir“ sem er um sjoppuna Hamraborg á Ísafirði og Hamraborgina í Kópavogi.
Þá var smá menning í lok vinnuvikunnar. Kíkti á útgáfuhóf Eiríks Arnar Norðdahl en tilefnið var að nýlega kom út ljóðabókin „Fimm ljóð“. Útgáfuhófið var í Bryggjusal Edinborgarhúss en þar var lesið upp úr bókinni og boðið upp á veitingar og bækur höfundar til sölu. Hann klikkar ekki frekar en fyrri daginn hann Eiríkur.
Brot af veitingunum á sólarkaffinu.
Kvenfélagið Ársól efndi til sólarkaffis í dag, sunnudag, en ágóðanum verður varið til uppbyggingar Ágústu ÍS 65 á Sumarróló. Sem kvenfélagskona skellti ég í tertur og brauðrétti en borðin svignuðu undan kræsingum. Það komu um 200 manns plús börn. Virkilega skemmtilegt og frábær endir á þessari viku.