Bókun bæjarráðs vegna lokunar flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hvetur Reykjavíkurborg, Isavia og Samgöngustofu til aðgerða vegna lokunar tveggja flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli.

Erindi Elvu Daggar Pálsdóttur, fyrir hönd Miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi, var tekið fyrir á 1311. fundi bæjarráðs, mánudaginn 27. janúar. Í því kemur fram að þann 10. janúar 2025 var tilkynnt um takmarkanir á flugumferð um Reykjavíkurflugvöll sem felst í lokun tveggja flugbrauta í myrkri vegna áhrifa trjágróðurs á aðflugs- og brottflugsfleti flugbrautanna.

Einnig kemur fram að „Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi lýsir yfir þungum áhyggjum vegna takmarkananna, enda er óheft aðgengi sjúkraflugvéla að Reykjavíkurflugvelli í mörgum tilfellum lífsnauðsynlegt fyrir veika og slasaða af stærstum hluta landsins.“

Í bókun bæjarráðs vegna málsins segir að Reykjavík beri ríka skyldu sem höfuðborg að tryggja öruggar og greiðar samgöngur við aðra landshluta. Þá eru Reykjavíkurborg, Isavia og Samgöngustofa hvött til að flýta fellingu þeirra trjáa sem um ræðir.