Ársskýrsla Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar 2024
Ársskýrsla Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024 er komin út og var lögð fram til kynningar á 1310. fundi bæjarráðs þann 20. janúar.
55 slökkviliðsmenn eru starfandi hjá slökkviliðinu, þar af eru 25 á Ísafirði og tíu á hverri útstöð slökkviliðsins, það er á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Þá er í gildi samstarfssamningur við slökkviliðin í Bolungarvík, þar sem eru 25 slökkviliðsmenn, og Súðavík, þar sem eru sex slökkviliðsmenn.
Fjórir starfsmenn eru í fullu stafi hjá slökkviliðinu. Þeir sinna öllum störfum sem koma inn á borð slökkviliðs, svo sem sjúkraflutningum, eldvarnareftirliti og slökkvitækjaþjónustu. Einnig að skipuleggja æfingar og endurmenntun fyrir aðra slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn.
Líkt og fyrri ár varð enginn stóreldur eða stórtjón á svæði slökkviliðsins árið 2024. Er þar þakkað öflugu eldvarnareftirliti og auknum forvörnum á heimilum.
Húsnæðismál slökkviliðsins eru fyrirferðarmikil í skýrslunni en skrifstofur slökkviliðsins fluttu tímabundið í leiguhúsnæði hjá Regus, í gamla Landsbankanum á Ísafirði, eftir að mikil mygla greindist í slökkvistöðinni. Framkvæmdaáætlun Ísafjarðrbæjar fyrir 2025 gerir ráð fyrir fjármagni til að ráðast í hönnun og teikningar á nýrri slökkvistöð, sem gert er ráð fyrir að verði á Suðurtanga.
Útköll slökkviliðs á árinu voru 11, með mismiklum forgangi. Eldur sem kom upp í rútu rétt við Vestfjarðagöngin, Skutulsfjarðarmegin, í september síðastliðnum var með stærri verkefnum slökkviliðsins árið 2024. Önnur útköll voru vegna umferðarslysa, leka hættulegra efna, aðstoðar við sjúkrabíl og fleiri minni atvika. Rútubruninn vakti upp mikla og þarfa umræðu um öryggi í jarðgöngum og var fundað með Vegagerðinni í kjölfarið.
506 sjúkraflutningar voru á árinu 2024 sem er dálítil aukning miðað við 467 flutninga árið 2023. Sjúkraflutningarnir skiptast svo:
- F-1 útkall í hæsta forgangi: 78
- F-2 útkall á forgangi: 92
- F-3/F-4 almennir sjúkraflutningar: 336
Fjöldi sjúkraflutninga á sjúkrabíl á Þingeyri voru 27.
Í skýrslunni er læknum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þakkað fyrir þeirra framlag til sjúkraflutninga á árinu. Einnig er þeim fjölmörgu sem komu að björgunaraðgerðum á árinu 2024 færðar þakkir.