Aðalskipulagsbreyting vegna íbúðarbyggðar á landfyllingu norðan Skutulsfjarðareyrar samþykkt
Bæjarstjórn hefur samþykkt aðalskipulagsbreytingu vegna íbúabyggðar á landfyllingu norðan Skutulsfjarðareyrar, en tillaga þess efnis var lögð fram á bæjarstjórnafundi þann 1. júní.
Vinna við breytinguna hófst um mitt síðasta kjörtímabil þegar tillaga um landfyllingu kom fyrst upp í tengslum við umræðu og ákvarðanir um dýpkun við Sundabakka og uppbygginu hafnarmannvirkja.
„Í því ferli kallaði Skipulagsstofnun eftir vandaðri vinnubrögðum þar sem færi fram valkostasgreining,“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, formaður skipulags- og mannvirkjanefndar. „Sú vinna átti sér stað og í framhaldinu var tekin ákvörðun í bæjarstjórn að velja þann valkost sem var til umfjöllunar í bæjarstjórn í gær. Ferlið hefur farið þá lögformlegu leið sem ætlast er til þegar um stórar skipulagsbreytingar er að ræða en jafnframt var haldinn íbúafundur til að kynna vinnslutillöguna.“
Endanleg skipulagstillaga var auglýst í byrjun mars og var athugasemdafrestur til 2. maí. Fimm umsagnir og 16 athugasemdir bárust og var farið yfir þær í skipulags- og mannvirkjanefnd. Að sögn Sigríðar sneru innsendar umsagnir og athugasemdir einkum að útsýnisskerðingu og að verið væri að draga úr þeim gæðum sem fjaran gefur almenningi, auk athugasemda við mögulega hljóðmengun og rask á meðan á framkvæmdum stendur. „Að mínu mati er mikið að græða á þeim athugasemdum sem fram komu og tel ég mjög mikilvægt að við vöndum okkur og lítum til þeirra þegar kemur að framkvæmdafasa og deiliskipulagsgerð,“ segir Sigríður.
Í viðbrögðum Ísafjarðarbæjar við innsendum athugasemdum kemur fram að við einhverjum þeirra sé veitt svör í skipulagsgögnum, svo sem hvað varðar framtíð fjörunnar og útivistar á svæðinu en í skipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir grænu svæði og göngustíg meðfram sjónum, líkt og í gildandi aðalskipulagi. Þá er gert ráð fyrir útivistarfjöru á vestari hluta fyllingarinnar. Tekið er undir þá athugasemd að vinna megi gegn neikvæðu þáttum sem fylgja því að núverandi fjara hverfi með því að dæla sandi utan á væntanlegan grjótgarð og mynda með þeim hætti nýja fjöru eða a.m.k. flýta fyrir myndun nýrrar fjöru. Þetta verður tekið til skoðunar sem mótvægisaðgerð.
Hvað skerðingu útsýnis varðar kemur fram í svörum Ísafjarðarbæjar að allur Skutulsfjörður er skilgreindur sem þéttbýli í núgildandi Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 og stór hluti Skutulsfjarðareyrar stendur á uppfyllingu nú þegar. Sú þróun hefur verið í gegnum tíðina að almenningur kýs að búa á Eyrinni og jafnframt horfir sveitarfélagið til þess að raska ekki ósnertum svæðum. Í skilgreindu þéttbýli má búast við að byggð þéttist og ásýnd bæja breytist með árunum. Landfylling norðan Fjarðarstrætis er hluti af þeirri þróun og henni er jafnframt ætlað að bæta loftslagsþol Eyrarinnar með hækkandi sjávarstöðu. Þá eru nú þegar skilgreindar byggingarlóðir á hluta svæðisins samkvæmt núgildandi deiliskipulagi.
Sigríður segir að hugsa þurfi til framtíðar og huga að tækifærum fyrir íbúðabyggð að þróast og atvinnulíf að eflast í sveitrfélaginu. „Nú þegar er í gangi vinna við breytingu á deiliskipulagi á Suðurtanga þar sem ætlunin er að geta boðið úrval lóða til atvinnustarfsemi og þá liggur einnig fyrir að vinna við endurskoðun á deiliskipulagi miðbæjar með markmiði að auka framboð íbúða á svæðinu. Það eru forgangsverkefni hvað varðar næstu aðkallandi verkefni sem við stefnum á að koma í framkvæmd sem fyrst.“