Á 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða

Í tilefni 20 ára afmælis Háskólaseturs Vestfjarða.
Það er ekki sjálfgefið að nýjar menntastofnanir verði til, hvað þá á afskekktum svæðum. Til þess þarf stórhuga einstaklinga, fulla af eldmóði og þrautseigju.
Þegar Háskólasetur Vestfjarða var stofnað árið 2005 var markmiðið að skapa menntamiðstöð sem gæti stuðlað að nýsköpun, samfélagsþróun og eflingu Vestfjarða. Nú, tuttugu árum síðar, er ljóst að Háskólasetrið hefur náð þeim markmiðum og meira til.
Frá upphafi var lögð áhersla á að bjóða upp á háskólanám sem tengdist náttúru og samfélagi svæðisins. Meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun og í sjávarbyggðafræði hefur laðað að nemendur alls staðar að úr heiminum, sem hefur bæði auðgað mannlíf á svæðinu og skapað tengslanet sem nær langt út fyrir landsteinana.
Áhrif Háskólasetursins á samfélagið eru því ótvíræð. Skólinn hefur eflt atvinnulíf og byggð á svæðinu, meðal annars með rannsóknum sem hafa nýst í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og nýsköpun. Nemendur og fræðafólk hafa tekið virkan þátt í samfélaginu, og margir þeirra hafa tekið þá ákvörðun að setjast að á Vestfjörðum til lengri tíma. Þetta er afar dýrmætt fyrir samfélagið, þar sem ný þekking og reynsla bætist við og stoðir byggðarinnar styrkjast.
Stofnun Háskólasetursins var gæfuspor. Við horfum björtum augum til framtíðar og hlökkum til næstu tuttugu ára þar sem Háskólasetrið mun áfram vera drifkraftur fyrir þekkingu, framfarir og fjölbreytni á Vestfjörðum.
Til hamingju með afmælið!
---
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir