Menningarmálanefnd

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
166. fundur 30. nóvember 2022 kl. 12:30 - 13:30 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Ásgerður Þorleifsdóttir formaður
  • Inga María Guðmundsdóttir varaformaður
  • Pétur Óli Þorvaldsson varamaður
Starfsmenn
  • Tinna Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi
  • Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Aðgerðaáætlun menningarstefnu Ísafjarðarbæjar - 2022100090

Lögð fram til kynningar lokaskjal aðgerðaráætlunar með Menningarstefnu Ísafjarðarbæjar, en bæjarstjórn samþykkti uppfærða áætlun á 502. fundi sínum þann 17. nóvember 2022.
Lagt fram til kynningar.

Nefndin felur starfsmanni að kynna verkefni ársins 2023 fyrir almenningi og samráðshópi menningarstefnu Ísafjarðarbæjar.

2.Samstarfssamningur - Kómedíuleikhúsið - 2005090047

Á 1217. fundi bæjarráðs var lagt fram bréf Elfars Loga Hannessonar, f.h. Kómedíuleikhússins á Þingeyri, dagsett 25. október 2022, þar sem óskað er eftir endurnýjun á tvíhliða samningi Ísafjarðarbæjar og Kómedíuleikhússins.

Samningur við Kómedíuleikhúsið fyrir árin 2021-2022 jafnframt lagður fram til kynningar.

Bæjarráð vísaði erindinu til umsagnar í menningarmálanefnd.
Nefndin fagnar samstarfi Ísafjarðarbæjar og Kómedíuleikhússins og telur alla aldurshópa samfélagsins njóta góðs af hinu öfluga leikhússtarfi sem Elfar Logi heldur úti. Nefndin leggur því til við bæjarstjórn að endurnýja samninginn.

3.Samningur um rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Þingeyri 2023 - 2022110030

Á 1218. fundi bæjarráðs 7. nóvember 2022 var lagt fram erindi Jónínu H. Símonardóttur, dags. 15. september 2022, þar sem óskað er endurnýjunar samnings við Koltru um rekstur upplýsingamiðstöðvar á Þingeyri, en núgildandi samningur rennur út í lok árs 2022. Núgildandi samningur er að fjárhæð kr. 750.000, en óskað er hækkunar.
Jafnframt þarf að taka afstöðu til endurnýjunar leigusamnings Koltru á Salthúsinu á Þingeyri, en sá samningur rennur út 31. desember 2022.

Bæjarráð vísaði málinu til umsagnar í menningarmálanefnd.
Nefndin telur að forsendur fyrir rekstri upplýsingamiðstöðva almennt í þeirri mynd sem þær hafa verið reknar séu ekki lengur fyrir hendi, m.a. með tilkomu stafrænnar tækni og aukinnar netvæðingar. Nefndin leggur því til við bæjarráð að ekki verði um endurnýjum samnings að ræða varðandi rekstur upplýsingamiðstöðvarinnar á Þingeyri. Aftur á móti telur nefndin að endurnýja megi leigusamning Salthússins við handverkshópinn Koltru, annað hvort með núverandi fjárhæð eða lækkaðri.

4.Styrkir til menningarmála 2022 - 2021110024

Lögð fram beiðni Margreirs Haraldssonar Arndal, dags. 16. nóvember 2022, þar sem óskað er eftir að fá að nýta styrk sem Allt Kollektív fékk úr menningarstyrkjasjóði Ísafjarðarbæjar á árinu, á næsta ári 2023. Um er að ræða styrk að fjárhæð kr. 130.000 og vegna verkefnisins "Listasmiðjur á Flateyri í boði Allt Kollektív" sem halda átti sumarið 2022 á bæjarhátíð Flateyrar "Götuveislunni".
Nefndin telur ekki forsendur fyrir því að heimila að nýta styrk ársins 2022 á árinu 2023, en nefndin hefur aðeins heimilað undanþágur vegna þessa þegar covid hamlaði því að viðburðir væru haldnir. Auk þess sem ekki er gert fyrir færslu fjármuna í styrkjasjóði milli ára. Ekki er því gert ráð fyrir að ónýttir fjármunir ársins 2022 verði færðir yfir á árið 2023.

Nefndin hafnar því beiðni um framlengingu styrks, en leggur til við umsækjanda að sækja aftur um í menningarstyrkjasjóð Ísafjarðarbæjar á árinu 2023.

5.Styrkir til menningarmála 2022 - 2021110024

Lagðar fram til kynningar greinargerðir Jamie Lai BOon Le vegna Fine Foods Islandica og Fjölnis Más Baldurssonar vegna Piff alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar á Ísafirði, en verkefnin hlutu menningarstyrk Ísafjarðarbæjar árið 2022.
Lagt fram til kynningar.

6.Styrkir til menningarmála 2021 - 2021020098

Lagðar fram til kynningar greinargerðir Halldóru Jónasdóttur vegna uppsetningar söngleiksins Draumastarfið, og Háskólaseturs Vestfjarða um málþing um vestfirskar bókmenntir og tónlist, svo og Péturs Alberts Sigurðssonar vegna tónsmiðju fyrir börn á Þingeyri, en öll verkefnin hlutu styrk úr menningarsjóði Ísafjarðarbæjar árið 2021.
Lagt fram til kynningar.

7.Jólaskreytingar í Ísafjarðarbæ - 2022110137

Mál tekið inn með afbrigðum að ósk nefndarmanna í menningarmálanefnd.
Fyrir liggur að óúthlutað er úr menningarstyrkjasjóði ársins 2022 alls kr. 380.000, þar sem viðburðir hafa ekki verið haldnir á árinu.

Menningarmálanefnd leggur því til við bæjarráð að heimila að keyptar verði jólaskreytingar og jólaljós fyrir þetta fjármagn, gerður viðauki til færslu fjármagns milli deilda og að óskað verði eftir að þjónustumiðstöð setji skreytingar og ljós upp fyrir jólin 2022.

Fundi slitið - kl. 13:30.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?