Hafnarstjórn - 155. fundur - 15. október 2011

Hafnarstjórn fór í vettvangsferð til Þingeyrar, Flateyrar og Suðureyrar. Fundirnir höfðu verið auglýstir á öllum höfnum ásamt því að viðskiptavinir voru boðaðir af starfsmönnum á hverjum stað.

 

Þingeyri. 2011-10-0061.

Mættir eru á Þingeyri.  Sigríður K. Ólafsdóttir, starfsmaður hafnarinnar á Þingeyri, Hafþór Guðmundsson, Páll Björnsson, Þórhallur Arason, Hjalti Proppe og Sigurður Friðriksson.

 

Rætt var um starfsemi hafnarinnar á Þingeyri. Fundarmenn lýstu ánægju sinni varðandi þá þjónustu sem veitt er á höfninni.

Fundarmenn lýstu óánægju sinni varðandi legu Maríu Júlíu í höfninni. Hafnarstjóri skýrði frá því að til stæði að taka Maríu Júlíu yfir á Ísafjörð á næstu vikum.

Fundarmenn lýstu óánægju sinni varðandi ónákvæmni á stóru vigtinni, sérstaklega þegar um slatta vigtanir er að ræða og þegar grásleppuhrogn eru vigtuð. Hafnarstjóri skýrði frá því að stefnt væri að því að kaupa pallavog til þess að leysa úr því, en höfnin á Þingeyri er eini staðurinn þar sem ekki er pallavog.

Einnig kom fram að það vantaði fríholt á höfnina. Hafnarstjóri skýrði frá því að keypt hafa verið dekk af Hringrás og bætt yrði úr því innan skamms.

Einnig var rætt um hvort að möguleiki væri á því að auka viðlegupláss í smábátahöninni.

 

Flateyri. 2011-10-0061.

Fundur í Félagsbæ á Flateyri kl. 12:00. Mættir eru Guðmundur Björgvinsson, Jón Svanberg Hjartarson, Ívar Kristjánsson, Kristján Kristjánsson og Sigurður Garðarsson, ásamt hafnarstjórn og hafnarstjóra.

 

Hafnarstjóri fór yfir rekstur og rekstrarfyrirkomulag á höfninni á Flateyri.

Fundarmenn lýstu yfir áhyggjum sínum á því sigi, sem orðið er á hafskipakanti, þar sem við vissar aðstæður þá flæðir sjór lengst upp á kantinn. Hafnarstjóri skýrði frá því að þetta vandamál væri erfitt að leysa en jafnframt, að það væri brýnt að finna leið til úrbóta. Kom fram að þar sem þetta mál er ekki á Samgönguáætlun þá væri það alfarið á kostnað hafnarinnar að leysa málið.

Kom fram hjá fundarmönnum, að það væri farið að vanta fríholt á hafnarkantinn og verður það mál leyst fljótlega þar sem nýbúið er að kaupa  dekk af Hringrás til úrbóta.

Einnig var rætt um öryggismál á höfninni og væntanlegar úrbætur á þeim málum. Rætt var um grynningar í fjörunni fyrir framan Hafnarstæti á Flateyri. Gerð er tillaga um að þar verði grafið upp og varið með grjóti til að varna frekari útskolun á efni.

Hafnarstjórn felur hafnarstjóra að kanna hjá Siglingastofnun hvað þarf til  til að koma verkefninu á Sjóvarnaráætlun. Fundarmenn komu á framfæri ósk um, að farið verði í að kanna hvort hægt verði að bæta við flotbryggju til að koma til móts við fjölgun smábáta á sumrin.

 

Suðureyri. 2011-10-0061.

Fundur haldinn á hafnarskrifstou á Suðureyri kl 14:00. Mættir eru Jóhann Bjarnason og Þorleifur Sigurvinsson, starfsmaður hafnarinnar á Suðureyri, ásamt hafnarstjórn og hafnarstjóra.

 

Hafnarstjóri skýrði frá rekstri hafnarinnar á Suðureyri og þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru samkvæmt Samgönguáætlun, sem er endurbygging löndunarkants fyrir framan Íslandssögu. Einnig var bent á að það vantaði að mála bryggjukanta. Hafnarstjóri skýrði frá því að það hefði staðið til að mála kanta sl. sumar, en hefði ekki tekist þar sem vinnuflokkur sem átti að sjá um verkið hefði ekki komist í það.

 

Fleira ekki gert komið aftur til Ísafjarðar kl. 16:15.

 

Gísli Jón Kristjánsson, formaður.

Guðfinna Hreiðarsdóttir.                                                       

Marzellíus Sveinbjörnsson.

Sigurður Hafberg.                  

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?