Bæjarstjórn - 285. fundur - 21. október 2010

Dagskrá:

 

 


 I.


 Tilvísun til bæjarstjórnar frá bæjarráði

 


Ályktun bæjarstjórnar er varðar heilbrigðismála í Ísafjarðarbæ.


 II.


  Tilvísun til bæjarstjórnar frá bæjarráði

 


Ályktanir bæjarstjórnar með tilvísun til frumvarps til fjárlaga 2011.

 III.

  Tilvísun til bæjarstjórnar frá bæjarráði

 Vatnssölusamningur.
 IV.

  Tilvísun til bæjarstjórnar frá bæjarráði

 Ályktun um aflaheimildir.
 V.

  Tilvísun til bæjarstjórnar frá bæjarráði

Ljósmyndasafn


 Ísafjarðar, endurskoðaðar samþykktir.
 VI.

 Tillögur félagsmálanefndar til bæjarstjórnar

 Endurskoðuð


 fjárhagsáætlun ársins 2010.
 VII.

 Tillaga fræðslunefndar til bæjarstjórnar

 Yfirtaka málefna


 fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
 VIII.

 Tillaga íþrótta- og tómstundanefndar til bæjarstjórnar

 Stöðugildi í leikskóla.


 IX.

 Tillaga íþrótta- og tómstundanefndar til bæjarstjórnar

 Reglur um sölu veitinga í íþróttahúsum.
 X.

  Tillaga íþrótta- og tómstundanefndar til bæjarstjórnar

 Opnunartími skíðasvæðis.
 XI.

 Vísan bæjarráðs til bæjarstjórnar

 11. liður 339. fundargerðar


 umhverfisnefndar. - Skipulagsreglugerð - ályktun bæjarstjórnar. 
 XII.

 Fundargerðir

 bæjarráðs 11/10. og 18/10.
 XIII.

 "

 félagsmálanefndar 5/10.
 XIV.

 "

 fræðslunefndar 12/10.
 XV.

 "

 íþrótta- og tómstundanefndar 13/10.
 XVI.

 "

 nefndar um sorpmál 13/10.
 XVII.

 "

 umhverfisnefndar 13/10.

 


I.   Tilvísun til bæjarstjórnar frá bæjarráði. - Ályktun bæjarstjórnar er varðar heilbrigðismál í Ísafjarðarbæ.


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Sigurður Pétursson, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Albertína Elíasdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Jóna Benediktsdóttir og Eiríkur Finnur Greipsson.

 

Vísun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, 5. lið frá 673. fundi þann 11. október 2010.

 


5. Umræður um stöðu heilbrigðismála í Ísafjarðarbæ með tilvísun til frumvarps til fjárlaga 2011.


Umræður í bæjarráði með tilvísun til stöðu heilbrigðismála í Ísafjarðarbæ, vegna þess niðurskurðar sem boðaður er í frumvarpi til fjárlaga 2011.  Haldinn var opinn borgarafundur um málið á Ísafirði þann 7. október sl. í íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði og er áætlað, að þar hafi mætt allt að 1.300 manns. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum.


,,Borgarafundur haldinn í íþróttahúsinu á Torfnesi 7. október 2010, hafnar alfarið þeim stórfellda niðurskurði á heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum, sem lagður er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.  Fundurinn krefst þess, að fallið verði frá boðuðum niðurskurði á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og tryggt verði að Vestfirðingar búi við sambærilegt öryggi í heilbrigðismálum og aðrir landsmenn.?


Bæjarráð tók heilshugar undir bókun borgarafundarins.

 


A.  Tillaga Gísla H. Halldórssonar, forseta, að ályktun ásamt greinargerð bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar vegna tillagna um niðurskurð á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Ísafirði.


 ,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur heilshugar undir ályktun sem samþykkt var á borgarafundi þann 7. október s.l. Bæjarstjórn telur að tillögur um að leggja niður sjúkrahúsþjónustu á Vestfjörðum séu óásættanlegar og krefst þess að aðrar leiðir verði farnar til sparnaðar í fjárlögum.


Aðgerð þessi mun hafa í för með sér verulega skert öryggi íbúa svæðisins sökum fjarlægðar við næsta sjúkrahús. Kostnaður íbúa við að sækja sér heilbrigðisþjónustu mun stóraukast. Verulegar líkur eru til þess að stofnunin verði óhagkvæmari í rekstri og sérhæfðir læknar munu missa vinnuna eða þeir fara annað sökum fábreytni í starfi.


Slík kúvending á uppbyggingu sjúkra- eða heilbrigðisþjónustu, er ekkert annað en árás á grundvöll byggðar á okkar landssvæði. Það er engum vafa undirorpið að algjör samstaða er í okkar samfélagi um að hafna alfarið þessum tillögum.?


Greinargerð:


Í nýkynntu frumvarpi til fjárlaga, er kynntur um 200 m.kr. niðurskurður á framlögum til Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða. Ef af verður má reikna með fjöldauppsögnum á stofnuninni, stórauknu sjúkraflugi, lokun nokkurra þjónustusviða, s.s. fæðingardeildar, skurðstofu, röntgensviðs og rannsóknasviðs og niðurskurðar í starfsemi bráðadeildar. Er þá ekki allt upp talið ef markmiðið á að nást. Meiri niðurskurður en  almennt er gerð krafa um á heilbrigðissviði í frumvarpi til fjárlaga 2011 er óásættanlegur.


 A.  Tillaga forseta að ályktun ásamt greinargerð samþykkt 9-0.

 


B. Tillaga Gísla H. Halldórssonar, forseta, að ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar vegna Reykjavíkurflugvallar. 


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áréttar fjölmargar fyrri ályktanir sínar, sem og áskoranir Fjórðungsþings Vestfirðinga, þar sem lýst er yfir eindregnum stuðningi við  samgönguyfirvöld í því verkefni að tryggja framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Bæjarstjórn skorar á borgarstjórn Reykjavíkur að hlusta eftir röddum almennings í landinu öllu þegar framtíð borgarinnar sem miðstöð samgangna á Íslandi er skipulögð.


Bæjarstjórn minnir ennfremur á ályktun Félags íslenskra atvinnuflugmanna þar sem segir að Reykjavíkurflugvöllur sé ómetanlegur sem sjúkra- og öryggismannvirki fyrir alla landsmenn. Bent var á að flugvöllurinn er aðalsjúkraflugvöllur landsins og nálægð hans við Landspítala-Háskólasjúkrahús hefur bjargað hundruðum mannslífa. Af þessu tilefni lýsir bæjarstjórn yfir furðu sinni á þeirri óvissu sem málefni Reykjavíkurflugvallar og samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri virðast vera í. Bæjarstjórn telur að tómt mál sé að tala um eflingu sjúkraflutninga og uppbyggingu hátæknisjúkrahúss fyrir alla landsmenn á meðan óvissa ríkir um framtíð flugvallarins.?


B.  Tillaga forseta að ályktun samþykkt 9-0.


 


II. Tillögur bæjarráðs til bæjarstjórnar. - Ályktanir bæjarstjórnar með tilvísun til frumvarps til fjárlaga 2011.


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Albertína Elíasdóttir, Sigurður Pétursson og Eiríkur Finnur Greipsson.


 


Tillögur bæjarráðs Ísafjarðarbæjar til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, 3. lið frá 674. fundi þann 18. október 2010.

 


3. Ályktanir með tilvísun til frumvarps til fjárlaga 2011. 


Á fundi bæjarráðs undir þessum lið var m.a. rætt um,


A. samgöngur við Austur-Grænland og


B. fjárveitingar til Háskólaseturs Vestfjarða.


Bæjarráð samþykkir að leggja fram tillögur að ályktunum á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 21. október n.k.

 

Drög að ályktun ásamt greinargerð bæjarstjórnar um samgöngur við Grænland.


A. Samgöngur við Austur-Grænland:


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar tillögum sem liggja annars vegar fyrir Alþingi Íslands um að sköpuð verði aðstaða til að hægt verði að sinna millilandaflugi frá Ísafjarðarflugvelli, og hins vegar fyrir grænlenska landsþinginu þess efnis að Ísland sjái í framtíðinni um flutninga á nauðsynjum til byggðanna á austurströnd Grænlands. Bæjarstjórn lýsir sig reiðubúna til að liðka fyrir þjónustu við svæðið. Bæjaryfirvöld hafa lengi talið það blasa við að Ísafjarðarbær verði, nálægðar sinnar vegna, þjónustumiðstöð fyrir Austur-Grænland. Því er skorað á ríkisvaldið að beita sér fyrir því að samvinna landanna verði aukin eins fljótt og eins mikið og verða má, og að tafarlaust verði hafinn undirbúningur þess að opna fyrir beint flug milli Ísafjarðar og Grænlands.?





Greinagerð:


Mikil sóknarfæri eru fyrir Ísfirðinga í þjónustu við Grænland sem er næsti flugvöllur við stór svæði á Austur-Grænlandi. Fyrirhuguð olíu- og námuvinnsla hefur nú þegar haft í för með sér talsverð umsvif með flugi frá bænum. Hins vegar er sú staða uppi að veita þarf sérstaka heimild í hvert sinn frá Flugmálastjórn til millilandaflugs frá vellinum sem gerir mönnum illkleift að veita þessa þjónustu frá Ísafirði.  Ísafjarðarbær hefur farið þess á leit við samgönguráðuneytið að útfærðar verði leiðir til að heimila slíkt flug varanlega frá Ísafjarðarflugvelli til Grænlands á minni flugvélum. Ekki liggur fyrir afstaða samgönguráðuneytisins til málsins en ljóst er að einhver kostnaður mun hljótast af þessari mikilvægu heimild, að uppfæra flugvöllinn til að uppfylla staðla. Bæjaryfirvöld vilja enn fremur benda á að lausnir hafa verið útfærðar í Norður-Noregi vegna flugs út fyrir Schengen-svæðið og því ætti slíkt að vera leikur einn ef viljann skortir eigi.


 Ályktunin ásamt greinargerð samþykkt 9-0.

 

Drög að ályktun ásamt greinargerð bæjarstjórnar um niðurskurð á fjárveitingum til Háskólaseturs Vestfjarða í frumvarpi til fjárlaga 2011.


B.  Fjárframlag til Háskólaseturs Vestfjarða.


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mótmælir harðlega hugmyndum um 30% niðurskurð fjárframlaga til Háskólaseturs Vestfjarða. Fjárhagslegt aðhald hefur verið slíkt hjá Háskólasetrinu að vakið hefur athygli annarra menntastofnanna, og bæjarstjórn telur fráleitt að refsa forsvarsmönnum setursins fyrir ráðdeild í rekstri. Óráðsía er engin og möguleikar til hagræðingar hverfandi. Því liggur fyrir að með niðurskurði sem þessum hverfur á einu augabragði sá árangur sem náðst hefur í uppbyggingu háskólastarfs á Vestfjörðum á undanförnum árum. Við það verður ekki unað.?





Greinagerð:


Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til Háskólaseturs Vestfjarða verði skert um 30 m.kr. Stofnunin hefur hingað til verið fjármögnuð af tveimur ráðuneytum. Annars vegar menntamálaráðuneytinu og það er út af fyrir sig fagnaðarefni að sú fjárveiting mun einungis dragast saman um 10%. Hins vegar hefur stofnunin fengið 23 m.kr. fjárveitingu frá iðnaðarráðuneytinu en samkvæmt fjárlögunum fellur sú fjárveiting alfarið niður.


Ef af verður mun meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun leggjast af en í vetur leggja 25 nemendur stund á það nám. Með því að bjóða upp á þetta nám hefur verið hægt að fá öflugri kennara til skólans og nemendur hafa skilið mikið eftir sig í samfélaginu. Starfsemi Háskólaseturs verður sett í algjört uppnám og kennarastöður og tugir afleiddra starfa í bæjarfélaginu leggjast af.


Ályktunin ásamt greinargerð samþykkt 9-0.

 


III. Tilvísun frá bæjarráði til bæjarstjórnar. - Vatnssölusamningur.


 Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Sigurður Pétursson og Eiríkur Finnur Greipsson.

 


4. Vatnssölumál. - Lindarfoss ehf. 2007-08-0062.


Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs og Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerðu bæjarráði grein fyrir fundi er þeir áttu með forsvarsmönnum Lindarfoss ehf., í Reykjavík þann 15. október sl. 





Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerði bæjarstjórn grein fyrir stöðu viðræðna við Ljósafoss ehf., hvað varðar vatnssölusamning.

 


IV. Tillaga frá bæjarráði til bæjarstjórnar. - Ályktun um aflaheimildir. 


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Kristján Andir Guðjónsson, Albertína Elíasdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Sigurður Pétursson og Eiríkur Finnur Greipsson.

 

Tillögur bæjarráðs Ísafjarðarbæjar til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, 7. lið frá 674. fundi þann 18. október 2010.

 


7. Ályktun er varðar beiðni um aukningu á úthlutun aflaheimilda á fiskveiðiárinu 2010/2011. 2010-02-0002. 


 Lögð fram drög að tillögu til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, um ályktun er varðar beiðni um aukningu á úthlutun aflaheimilda á fiskveiðiárinu 2010/2011.  Tillagan er svohljóðandi.


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að auka við aflaheimildir fiskveiðiársins 2010/2011.


Staða margra sveitarfélaga og hafnarsjóða er slæm og með boðuðum niðurskurði á fjárlögum s.s. aukaframlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og niðurfellingu á endurgreiðslu vegna tryggingagjalds, munu erfiðleikar þeirra aukast til muna.


Aukin úthlutun á aflaheimildum er kjörin leið, til að auka tekjur þeirra byggðarlaga, sem byggja afkomu sína að miklu leyti á veiðum og vinnslu sjávarafla.


Slík ráðstöfun hlýtur að vera réttlætanleg til að efla byggðir landsins og skjóta traustari fótum undir atvinnu, ásamt því að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.


Breyting á aflareglu er á valdi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem auknar aflaheimildir hafa á samfélög eins og Ísafjarðarbæ, skorar bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að beita sér fyrir auknum aflaheimildum sem fyrst." Bæjarráð vísar tillögunni til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.


Breytingartillaga Albertínu Elíasdóttur um að fella út nafn ráðherra samþykkt 8-0.


Breytingartillaga Gísla H. Halldórssonar, forseta,  um niðurfellingu setningar er hófst á orðunum ,,Hægt er að auka o.s.frv. samþykkt 7-0.


Tillaga bæjarráðs að ályktun með áorðnum breytingum samþykkt 8-0.

 


V. Tillaga frá bæjarráði til bæjarstjórnar. - Ljósmyndasafnið Ísafirði,


 endurskoðaðar samþykktir.



 Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti og Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

 

Tillaga bæjarráðs Ísafjarðarbæjar til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, 9. lið frá 674. fundi þann 18. október 2010.

 




9. Endurskoðun samþykkta fyrir Ljósmyndasafnið Ísafirði. 2010-10-0041.


Lagt fram minnisblað frá Jónu Símoníu Bjarnadóttur, forstöðumanni Bæjar- og héraðsbókasafns, Héraðsskjalasafns og Ljósmyndasafns Ísafjarðar, dagsett 15. október sl., þar sem hún gerir grein fyrir nýrri lítt breyttri samþykkt fyrir Ljósmyndasafnið Ísafirði.  Minnisblaðinu fylgir tillaga að nýrri samþykk, ásamt afriti af bréfi safnaráðs frá 20. ágúst sl., er varðar málið.


Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að samþykktirnar verði staðfestar. 


Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs 9-0.

 


VI. Tillaga frá bæjarráði til bæjarstjórnar. - Endurskoðuð fjárhagsáætlun


 ársins 2010.



 Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Arna Lára Jónsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Sigurður Pétursson. 

 

Tillaga bæjarráðs Ísafjarðarbæjar til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, 10. lið frá 674. fundi þann 18. október 2010.


10. Endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins 2010. 


Á fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár er mættur Jón H. Oddsson, fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar.


Jón gerði bæjarráði grein fyrir stöðu á endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010 og lagði fram gögn hvað það varðar.  Jafnframt gerði hann grein fyrir stöðu vinnu við fjárhagsáætlunar 2011. 


Bæjarráð samþykkir að endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 verði lögð fyrir fund bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 21. október n.k.


Gísli H. Halldórsson, forseti, lagði til að endurskoðuð fjárhagsáætlun ársin 2010 verði samþykkt.


Tillaga forseta samþykkt 9-0.

 


VII. Tillögur félagsmálanefndar til bæjarstjórnar. - Yfirtaka málefna fatlaðra


 frá ríki til sveitarfélaga.



 Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir og Albertína Elíasdóttir. 

 

Tillaga til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 346. fundi félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar þann 5. október 2010.

 


3. Yfirfærsla á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélags.    2009-10-0001


Lögð fram greinargerð starfshóps er unnið hefur að undirbúningi á yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélagsins. Þær Guðfinna Hreiðarsdóttir, Anna Valgerður Einarsdóttir og Auður Finnbogadóttir eru í starfshópnum er vinnur að undirbúningi yfirfærslunnar og gerðu þær grein fyrir efni greinargerðarinnar og vinnu starfshópsins. Guðfinna kynnti jafnframt framkvæmdaáætlun fram til áramóta vegna yfirfærslunnar.

 


Liður merktur A. Félagsmálanefnd samþykkir fyrir sitt leyti tillögur greinargerðarinnar er lúta að nýju skipuriti fyrir Skóla- og fjölskylduskrifstofu og fyrirkomulag á þjónustu skrifstofunnar eftir yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélagsins með fyrirvara um ákvörðun vegna viðbótarstöðugildis félagsráðgjafa.


Gísli H. Halldórsson, forseti, leggur til að skipurit, sem fram kemur á blaðsíðu 13-14 í greinargerð og tillögum starfshóps um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga verði samþykkt, en frestað verði ákvörðun um stöðugildi.


Tillaga forseta samþykkt 9-0. 


 


Tillaga B. Félagsmálanefnd telur mikilvægt að starfshópurinn starfi áfram eftir yfirfærsluna og leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að hún samþykki að starfshópurinn starfi til loka kjörtímabilsins. 


Tillaga félagsmálanefndar samþykkt 9-0.

 

Að loknum umræðum undir VII. lið dagskrár óskaði Gísli H. Halldórsson, forseti, eftir heimild fundarins til að leggja fram svohljóðandi tillögu undir þessum lið og var það samþykkt.


Tillaga C. Í tilefni af flutningi á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga óskar bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir samstarfi við Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp, um sameiginlegan rekstur allrar félagsþjónustu. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar bendir á að í skýrslu 100 daga nefndar kemur m.a. fram að félagsþjónusta þessara þriggja sveitarfélaga er vel samrýmanleg og talið að fagþekking myndi aukast og mannauður nýtast betur.


Tillaga forseta samþykkt 9-0.


   


VIII. Tillaga fræðslunefndar til bæjarstjórnar. - Stöðugildi í leikskóla.



 Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Jóna Benediktsdóttir, Daníel Jakobsson og Eiríkur Finnur Greipsson.

 


Tillaga til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 300. fundi fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar þann 12. október 2010.

 


6.  Beiðni um fjölgun stöðugilda á leikskólanum Tjarnarbæ.


Lagt fram bréf, dags. 7. október 2010, undirritað af Katrínu Lilju Ævarsdóttur, leikskólastjóra á Tjarnarbæ á Suðureyri.  Þar er óskað eftir auknu stöðugildi til 1. september 2011,  sem nemur 37,5% af heilu stöðugildi.  Aukningin er til komin vegna aukins fjölda barna. 


Fræðslunefnd leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að beiðnin um 37,5% stöðugildi verði samþykkt.


 Tillaga fræðslunefndar samþykkt 9-0.

 


IX. Tillaga íþrótta- og tómstundanefndar til bæjarstjórnar. - Reglur um sölu veitinga í íþróttahúsum.


Til máls tók: Gísli H. Halldórsson, forseti.

 

Tillaga til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 117. fundi íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar þann 13. október 2010.

 


1.  Reglur um sölu veitinga í íþróttamannvirkjum.  2010-10-0020


Lögð fram drög að reglum um sölu veitinga í íþróttamannvirkjum.


Nefndin felur starfsmanni að gera breytingar á reglunum í samræmi við umræður á fundinum og leggur jafnframt til við  bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að hún samþykki reglurnar.


Tillaga íþrótta- og tómstundanefndar samþykkt 9-0.

 


X. Tillaga íþrótta- og tómstundanefndar til bæjarstjórnar. - Opnunartími skíðasvæðis.


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Sigurður Pétursson, Kristín Hálfdáns- dóttir, Jóna Benediktsdóttir og Eiríkur Finnur Greipsson. 

 


Tillaga til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 117. fundi íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar þann 13. október 2010.





5.   Opnunartími skíðasvæðisins.   2010-10-0021


Lagður fram tölvupóstur frá umsjónarmanni eigna dagsettur 5.10.2010, þar sem fram kemur tillaga að opnunartíma skíðasvæðisins  veturinn 2010-2011. Lagt er til að opnunartími verði sá sami og síðasta vetur.


Nefndin leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að tillagan verði samþykkt. 


Eiríkur Finnur Greipsson lagði til að afgreiðslu á tillögu íþrótta- og tómstundanefndar yrði frestað þar til lokið er gerð fjárhagsáætlunar 2011.. 


Tillaga Eiríks Finns um frestun samþykkt 9-0.

 


XI.  Vísan bæjarráðs til bæjarstjórnar. - 11. liður 339. fundargerðar umhverfisnefndar. - Skipulagsreglurger - ályktun bæjarstjórnar. 


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Albertína Elíasdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.

 


Vísun bæjarráðs til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, 11. liður frá 339.fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar þann 13. október 2010.





11. Skipulagsreglugerð 2011.  (2010-09-00036).


Lagt fram bréf dags. 10. sept. sl., frá Stefáni Thors hjá Skipulagsstofnun, þar sem óskað er eftir samráði við hagsmunaaðila við gerð nýrrar skipulagsreglugerðar, sem stefnt er að útgáfu á fyrir 1. júlí 2011.  Ný skipulagslög voru samþykkt á Alþingi 9. september sl.


Erindinu var frestað á síðasta fundi umhverfisnefndar.


Umhverfisnefnd bendir á að æskilegt sé að sveitarfélag hafi skipulagsvald yfir sínu nánasta umhverfi  svo sem firði og flóa t.d.  eina  mílu út fyrir grunnlínupunkt.


Bent er á að ákvæði um fjarlægð  byggingar frá stofn- og tengivegum, þá ætti að taka tillit til  umferðarþunga.


Svarfrestur umsagnaraðila sé skýrt skilgreindur t.d. 4 vikur. Skortur á viðbrögðum frá umsagnaraðilum telst samþykki.

 

Gísli H. Halldórsson, forseti, lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun um skipulagsreglugerð.  ,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélögum sé falið skipulagsvald yfir nánasta umhverfi. Skipulagsvald eina mílu út fyrir grunnlínupunkta nær yfir það sem skilgreint er sem ?strandsjór? í vatnatilskipun Evrópusambandsins sem innleidd var á Íslandi 2008. Fiskeldi og efnistaka eru meðal athafna sem fara fram inni á fjörðum, svo að segja í túnfæti sveitarfélaga, án þess að þau hafi í raun nokkuð um það að segja. Skarast þar jafnvel hagsmunir við íbúa og atvinnugreinar á sjó og landi. Með skipulagsvaldi á strandsjó væri umhverfi og athafnir á strandsvæðum falið í ábyrgð þeirra íbúa sem næst þeim standa.?


Tillaga forseta að bókun samþykkt 9-0. 





XII. Bæjarráð.  


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Sigurður Pétursson, Daníel Jakobsson, Arna Lára Jónsdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson og Kristján Andri Guðjónsson.  

 

Fundargerðin 11/10.  673. fundur.


Fundargerðin er í tólf liðum.


Við umræður undir þessum lið óskaði forseti eftir heimild til afgreiðslu á tillögu í 10. lið um erindisbréf íþrótta- og tómstundanefndar og var það samþykkt.


10. liður. Tillaga um endurskoðað erindisbréf íþrótta- og


tómstundanefndar samþykkt 9-0.


Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

 

Fundargerðin 18/10.  674. fundur.


Fundargerðin er í tíu liðum.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 


XIII. Félagsmálanefnd.


Fundargerðin 5/10.  346. fundur.


Fundargerðin er í fimm liðum.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 


XIV. Fræðslunefnd. 


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti og Jóna Benediktsdóttir.

 

Fundargerðin 12/10.  300. fundur.


Fundargerðin er í sjö liðum.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 


XV. Íþrótta- og tómstundanefnd. 


Til máls tóku. Gísli H. Halldórsson, forseti, Arna Lára Jónsdóttir og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir

 

Fundargerðin 13/10.  117. fundur.


Fundargerðin er í átta liðum.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 


XVI. Nefnd um sorpmál í Ísafjarðarbæ. 


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson, forseti, Kristján Andri Guðjónssson og Kristín Hálfdánsdóttir.

 

Fundargerðin 13/10.  3. fundur.


Fundargerðin er í tveimur liðum.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 


XVII. Umhverfisnefnd 


Til máls tóku: Gísli H. Halldórsson og forseti, Jóna Benediktsdóttir,

 

Fundargerðin 13/10.  339. fundur.


Fundargerðin er í fimmtán liðum.


Fundargerðin staðfest í heild sinni 9-0.


   


Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð.  Fundi slitið kl. 20:47.

 

Þorleifur Pálsson, ritari


Gísli H. Halldórsson, forseti bæjarstjórnar


Eiríkur Finnur Greipsson


Guðfinna M. Hreiðarsdóttir


Kristín Hálfdánsdóttir


Albertína Elíasdóttir


Sigurður Pétursson


Arna Lára Jónsdóttir


Jóna Benediktsdóttir


Kristján Andri Guðjónsson


Daníel Jakobsson, bæjarstjóri



Er hægt að bæta efnið á síðunni?