Bæjarráð - 809. fundur - 16. september 2013

1.      Skólalóð Austurvegi. 2012-03-0090.

1.a. Tillaga til bæjarráðs frá bæjarfulltrúum Í-listans.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar felur bæjarstjóra að vinna minnisblaði þar sem fram kemur yfirlit um allar ákvarðanir sem teknar hafa verið um hönnun og framkvæmd breytinga á Austurvegi og við Austurvöll á Ísafirði, allt frá samþykkt fjárhagsáætlunar í desember 2012 til þessa dags. Þar með hvenær fjallað var um málið í nefndum og ráðum bæjarins og hvenær einstakar ákvarðanir voru teknar og hver tók þær.

 

Greinargerð:

Margt virðist hafa farið úrskeiðis við hönnunar- og framkvæmdaferli nýrrar skólalóðar við Grunnskólann á Ísafirði og ljóst má vera að þar hefur í ýmsu tilliti verið farið á svig við reglur um góða stjórnsýslu.  Um er að ræða framkvæmd sem gjörbreytir umferð og aðgengi í miðbæ Ísafjarðar.

 

Nefna má að minnsta kosti þrjú atriði sem bæjarfulltrúar Í-lista telja ámælisverð. Hönnun lóðarinnar var ekki tilbúin það tímanlega að hægt væri að vanda til verka eins og nauðsynlegt er við breytingar af þessu tagi og benda má á að bæjarfulltrúar Í-lista lýstu áhyggjum sínum af seinagangi þessa máls á flestum bæjarstjórnarfundum á síðasta ári. Endanlegar teikningar voru ekki lagðar fyrir bæjastjórn eða bæjarráð og verið var að gera breytingar á þeim eftir að framkvæmd var hafin. Ekki var auglýst breyting á deiliskipulagi áður en framkvæmdir hófust og því gafst hagsmunaaðilum ekki formlegt tækifæri til að gera athugasemdir eins og þeir hafa rétt á þegar verið að er gera breytingar á aðgengi eða umferð.

Umhverfisnefnd samþykkti hins vegar á fundi sínum þann 21. ágúst að auglýsa breytingu á deiliskipulagi en þá voru framkvæmdir langt komnar.

 

Nauðsynlegt er fyrir bæjarstjórn að gera sér grein fyrir hvað fór úrskeiðis í þessu ferli og því  óskar Í-listinn eftir minnisblaði/yfirliti frá bæjarstjóra um hönnunar og framkvæmdaferlið þar sem fram koma hvenær ákvarðanir voru teknar og af hverjum, hvenær mál voru lögð fyrir nefndir bæjarins og dagsetningar umfjöllunar og ákvarðana.

 

Fyrir hönd bæjarfulltrúa Í-listans,

Sigurður Pétursson

Jóna Benediktsdóttir

 

Bæjarráð samþykkir tillögu Í-lista að bókun.

 

1.b. Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerir grein fyrir ferli málsins.

Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, dagsett 15. september sl., þar sem hann tekur saman upplýsingar um málið og svarar spurningum Í-lista.

 

2.      Fundarferð félagsmálanefndar.

Félagsmálanefnd 10/9. 380. fundur.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

3.      Fundargerð fræðslunefndar.

Fræðslunefnd 11/9. 335. fundur.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

4.      Fundargerð Íþrótta- og tómstundanefndar.

Íþrótta- og tómstundanefnd 10/9. 141. fundur.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

5.      Fundargerð Umhverfisnefndar.

Umhverfisnefnd 11/9. 399. fundur.

4. liður. Tillaga til bæjarstjórnar um deiliskipulag á Austurvegi. Bæjarráð vísar   afgreiðslu þessa liðar til fyrsta fundar bæjarstjórnar eftir sumarleyfi, 19. september nk.

5. liður. Tillaga til bæjarstjórnar um deiliskipulag á Ingjaldssandi. Bæjarráð vísar afgreiðslu þessa liðar til fyrsta fundar bæjarstjórnar eftir sumarleyfi, 19. september nk.

6. liður. Ósk um umsögn bæjarráðs um deiliskipulagstillögu í Reykjanesi. Bæjarráð frestar erindinu til næsta fundar.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

6.      Trúnaðarmál. – Atvinnumál. 2013-09-0022.

Shiran Þórisson mætti til fundar bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.

Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálamöppu bæjarráðs.

 

7.      Reiðvöllur í Engidal. 2011-10-0056.

Lagt fram bréf frá Málflutningsstofu Reykjavíkur, dagsett 5. september sl., móttekið 9. september, en Hestamannafélagið Hending hefur óskað eftir því að Málflutningsstofa Reykjavíkur gæti hagsmuna félagsins er varða aðstöðu sem félagið hafði að Búðartúni í Hnífsdal samkvæmt leigusamningi við Ísafjarðarbæ.

Það er mat Hestamannafélagsins að samningaleiðin í þessu máli sé fullreynd og tímabært að vísa málinu til úrlausnar óháðs aðila. Fyrir liggur að marka málinu réttan farveg og er óskað eftir afstöðu bæjarins til fimm spurninga sem spurt er í bréfinu.

Þess er krafist að svar berist eigi síðar en tveimur vikum frá dagsetningu bréfs þessa.

Bæjarráð felur Andra Árnasyni, bæjarlögmanni, að svara spurningum bréfritara.

 

8.      Ósk um að ráða tvo starfsmenn á Sólborg. 2013-05-0024.

Erindi áður á dagskrá bæjarráðs 27. ágúst sl.

Lagt fram bréf Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, dagsett 13. september sl., þar sem hún gerir frekari grein fyrir kostnaði við ráðningu tveggja starfsmanna á Sólborg.

Bæjarráð samþykkir tillögu sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs um ráðningu starfsmanna á Sólborg og mismunur verði færður í gegn um niðurstöðu rekstrar.

 

9.      Byggðakvóti fiskveiðiárið 2013/2014. 2013-09-0024.

Lagt fram bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dagsett 11. september sl., með auglýsingu umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2013/2014. Umsóknarfrestur er til 30. september n.k. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá umsókn Ísafjarðarbæjar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2013/2014.

 

10.  Ágóðahlutagreiðsla 2013. 2012-05-0055.

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands, dagsett 6. september sl., er varðar ágóðahlutagreiðslu ársins 2013. Ágóðahlutagreiðsla til Ísafjarðarbæjar er kr. 7.230.000.-.

Lagt fram til kynningar.

 

11.  Fundargerð 83. fundar stjórnar Náttúrustofu Vestfjarða.

Lögð fram fundargerð 83. fundar stjórnar Náttúrustofu Vestfjarða er haldinn var 5. september sl.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, fór yfir fjárhagsstöðu NAVE.

Lagt fram til kynningar.

 

12.  Ferðaþjónustan Reykjanesi. – Umsögn um endurnýjun rekstrarleyfis. 2013-09-0019.

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Ísafirði, dagsett 10. september sl., þar sem umsagnar Ísafjarðarbæjar er óskað á umsókn Jóns Heiðars Guðjónssonar um endurnýjun á rekstrarleyfi fyrir Ferðaþjónustuna í Reykjanesi.

Bæjarráð gerir ekki athugasemd við umsókn um rekstrarleyfi, að uppfylltum þeim skilyrðum er um slík leyfi gilda.

 

13.  Umferðarsáttmáli afhentur þjóðinni. 2013-09-0025.

Lagt fram bréf Samgöngustofu og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 6. september sl., um afhendingu Umferðarsáttmálans til þjóðarinnar. Umferðarsáttmálinn eru kurteisisreglur sem ætlað er að auka sameiginlegan skilning á því hvernig við viljum haga okkur í umferðinni, hvernig við sýnum hvort öðru tillitssemi og stuðlum þannig að auknu öryggi. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, mun veita sáttmálanum viðtöku 18. september n.k.

Lagt fram til kynningar.

 

14.  Fjárhagsáætlun 2014. 2013-06-0033.

Lagðar fram forsendur fjárhagsáætlunar 2014, unnar af Jóni H. Oddssyni, fjármálastjóra. Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, ræðir um fjárfestingar.

Bæjarráð vísar forsendum fjárhagsáætlunar til kynningar í bæjarstjórn.

 

Fleira ekki gert. Fundargerð upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl.10:45.

 

Hjördís Þráinsdóttir, skjalastjóri.

Gísli Halldór Halldórsson, formaður.

Albertína Elíasdóttir.                                                           

Kristján Andri Guðjónsson.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?