Bæjarráð - 699. fundur - 2. maí 2011

Þetta var gert:

1.         Minnisblað bæjarritara. - Tveim dagskrártillögum um mannaráðningar

            vísað til bæjarráðs frá 295. fundi bæjarstjórnar.

 

Starfsmannamál á umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar.  2011-04-0092.

            Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerði bæjarráði grein fyrir umsækjendum um starf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, en í lok síðustu viku var öllum viðtölum við umsækjendur lokið.  Umsjón með viðtölum hafði Ragnheiður Dagsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent í Reykjavík.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Jóhann Birkir Helgason, Hnífsdal, verði ráðinn sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar.

 

Starfsmannamál á skóla- og tómstundasviði Ísafjarðarbæjar.  2011-04-0100.

            Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerði bæjarráði grein fyrir umsækjendum um starf sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar, en í lok fyrri viku var öllum viðtölum við umsækjendur lokið.  Umsjón með viðtölum hafði Ragnheiður Dagsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent í Reykjavík.

            Meirihluti bæjarráðs leggur til við bæjarstjórn, að Margrét Halldórsdóttir, Ísafirði, verði ráðin sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Íafjarðarbæjar.

 

            Arna Lára Jónsdóttir, fulltrúi Í-lista í bæjarráði lagði fram eftirfarandi bókun.

            ,,Ég harmar hvernig staðið hefur verið að ráðningu sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs, þar sem ekki var fylgt eftir faglegum sjónarmiðum.

            Ljóst er að þær matsaðferðir sem notast var við í ráðningarferlinu voru sérstaklega smíðaðar til að hygla einum umsækjenda umfram aðra, og ekki í neinu samræmi við umfang og ábyrgð sem sviðstjóri skóla- og tómstundasviðs þarf að hafa.

            Sá umsækjandi sem meirihluti bæjarráð gerir tillögu um að ráða hefur minnsta menntun á sviði skólamála af þeim fjórum umsækjendum sem metnir voru hæfastir í matinu og sá eini sem hefur enga framhaldsmenntun á því sviði, sem er fráleitt miðað við þá ábyrgð og skyldur sem fylgja sviðsstjóra skóla og tómstundasviðs. Skóla- og tómstundasvið á að virka sem stoðkerfi fyrir grunnskólana og það slær skökku við að ráða sviðstjóra sem er með minni menntun en skólastjórnendur, sér í lagi þegar í boði er að ráða umsækjendur sem uppfylla þessar kröfur.

            Matið byggir á að þekking á grunnskólamálum, leikskólamálum og íþrótta- og tómstundamálum séu lögð að jöfnu, en raunin er sú að íþrótta og tómstundamál eru ekki nema lítil hluti af starfsemi Skóla- og fjölskyldusviði. Þetta er einkennnilegt sérstaklega í ljósi þess að ætlunin er færa fleiri verkefni til HSV, og minnka vægi þess málaflokks en frekar innan sviðsins. Grunnskólamálin vega þyngst á skóla- og tómstundasvið, hvað varðar ábyrgð, umfang og fjármagn, matið ætti því að láta þekkingu og reynslu af grunnskólamálum hafa það vægi sem raunin er.

            Tillaga meirihluta bæjarráðs Ísafjarðarbæjar gengur framhjá tveimur mun hæfari umsækjendum, hvað þetta atriði varðar.  Þar að auki hefur það mat frá Capacent sem liggur til grundvallar þessarar ráðningar tekið miklu breytingum á einni viku í þá átt að hygla einum umsækjanda umfram aðra. Mat Capacent sem lagt var fyrir bæjarráð fyrir viku síðan sýndi fram á að annar umsækjandi væri hæfari en sú sem hér er gerð tillaga um. Bæjarfulltrúar fengu í kjölfarið endurskoðað mat sem breytir niðurröðun  umsækjenda. Ekki er þetta til að auka trú á faglegum vinnubrögðum við þessa ráðningu.

            Það mat á umsækjendum sem liggur fyrir sem forsenda ráðningar sviðsstjóra skóla og tómstundasviðs gerir markvisst lítið úr þekkingu og reynslu sumra umsækjenda en hífir upp reynslu og þekkingu þess umsækjenda sem hér er tillaga um að ráða. Í því sambandi má nefna þegar litið er til reynslu af stefnumótun og verkefnastjórnun, breytingarstjórnun, þekkingu á íþrótta- og tómstundamálum.

            Það er sorglegt fyrir bæjarbúa og þjónustuþega skóla- og tómstundasviðs að meirihluti bæjarráðs Ísafjarðarbæjar ætli ekki að standa faglega að ráðningu í þetta starf, heldur ætla að láta pólitíska hagsmuni ráða för.“

 

            Fulltrúar B- og D-lista í bæjarráði, Albertína Elíasdóttir og Eiríkur Finnur Greipsson, lögðu fram svohljóðandi bókun.

            Fulltrúar meirihlutans í bæjarráði Ísafjarðarbæjar, mótmæla harðlega fullyrðingum í bókun fulltrúa Í-listans, varðandi ráðningarferli sviðsstjóra Skóla- og tómstundasviðs. Sömu vinnubrögð hafa verið í þessu ferli og verið hafa í öllum ráðningum núverandi meirihluta og alger samstaða hefur verið í bæjarráði og bæjarstjórn um þær ráðningar sem hafa verið afgreiddar, frá upphafi þessa kjörtímabils. Eins og áður sá ráðgjafaþjónusta Capacent um faglegt utanumhald í ráðningarferlinu.

            Niðurstaða meirihluta B- og D-lista í bæjarstjórn var að leggja til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við Margréti Halldórsdóttur um starfið, enda niðurstaðan fullkomlega byggð á sömu aðferðafræði og fyrri ráðningar.

            Meirihlutinn hlýtur hins vegar að harma það að upp komu villur í gögnum frá Capacent á lokastigum málsins, og þó þær hafi ekki haft áhrif á endanlega röðun umsækjenda þá voru þær engu að síður til þess fallnar að kasta rýrð á annars faglegt ráðningarferli.

            Með tilliti til þeirra ágalla sem komið hafa fram í úrvinnslu umsókna, fer meirihluti bæjarráðs framá að Capacent, skili inn greinargerð um ráðningarferlið og niðurstöðu þess.

            Meirihlutinn fagnar því hversu margir vel hæfir umsækjendur sóttu um starf sviðsstjóra Skóla og tómstundasviðs og þakkar öllum umsækjendum, um leið og þeim er óskað velfarnaðar.

 

2.         Minnisblað bæjarritara. - Dagskrártillögu vegna Edinborgarhússins ehf.,

            vísað til bæjarráðs frá 295. fundi bæjarstjórnar.  2010-05-0004.

            Lagt fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsettu 25. apríl sl., minnisblaði er vísað var frá 295. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs.

            Minnisblaðið fjallar um málefni Edingorgarhússins ehf., Ísafirði, og fylgir minnisblaðinu ársreikningur Edingorgarhússins ehf., fyrir starfsárið 2010.

 

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að Ísafjarðarbær samþykki að greiða allt að kr. 8,6 milljónir, sem lið í skuldauppgjöri Endingorgarhússins ehf., við kröfuhafa. 

            Litið verði svo á að umrædd fjárhæð sé fyrirfram greidd húsaleiga Ísafjarðarbæjar vegna afnota af húsnæði Edingorgarhússins ehf.  og geti numið allt að kr. 600.000.- á ári.

            Greiðslan verði fjármögnuð með sölu eigna Ísafjarðarbæjar.

 

3.         Minnisblað bæjarritara. - Dagskrártillögu vegna umsagnar um ný

            sveitarstjórnarlög, vísað til bæjarráðs frá 295. fundi bæjarstjórnar.

            Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Umsögn um frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga.           2011-02-0095.

            Lagt var fram í bæjarstjórn á 295. fundi minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, um frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga, þar sem tillaga er um, að bæjarstjórn feli bæjarráði að ganga frá umsögn Ísafjarðarbæjar. Tillaga bæjarstjóra um vísan dagskrárliðar til bæjarráðs samþykkt 9-0.

            Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að ganga frá drögum að umsögn, í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyrir bæjarráð til endanlegrar afgreiðslu.

 

4.         Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. Framkvæmdir við Hlíf I og Hlíf II

            á Ísafirði.  2009-03-0030.

            Lagt fram bréf frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar dagsett 29. apríl sl., þar sem er grein fyrir væntanlegum framkvæmdum vegna viðhalds og ofl. á Hlíf I og Hlíf II á Ísafirði.  Þar sem ætlunin er að bjóða út greindar framkvæmdir er óskað eftir að farið verði með allar kostnaðartölur sem trúnaðarmál.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að heimilað verði að fara  í útboð á verkinu.      

 

5.         Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Endurskoðun á starfsemi á Hlíf.

            2011-04-0105.

            Lagt fram bréf frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar dagsett 28. apríl sl., þar sem greint er frá endurskoðun á allri starfsemi á Hlíf, Ísafirði, með tilvísun til áætlunar er gerð var samhliða gerð fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2010.  Farið verði með ákveðna þætti bréfsins sem trúnaðarmál.

            Bæjarráð samþykkir að farnar verði þær leiðir er fram koma í ofangreindu bréfi.

 

6.         Bréf umhverfisráðuneytis/Ofanflóðasjóðs. - Uppkaup húsa við Seljalandsveg

            á Ísafirði.  2011-04-0107.

            Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti/Ofanflóðasjóði dagsett 28. apríl sl., þar sem greint er frá 166. fundi Ofanflóðanefndar, þar sem nefndin lýsir sig reiðubúna til viðræðna við Ísafjarðarbæ um uppkaup húsa við Seljalandsveg á Ísafirði. 

            Lagt fram til kynningar.

 

 7.        Bréf innanríkisráðuneytis. - Endurskoðun laga- og reglugerðaákvæða um

            Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.  2010-07-0039.

            Lagt fram bréf frá innanríkisráðuneytinu dagsett 27. apríl sl., þar sem greint er frá að starfshópur sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði í bebrúar 2009, til að endurskoða gildandi laga- og reglugerðarákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga lauk störfum s.l. vor. 

            Í skýrslu sem birtist á vef ráðuneytisins gerir starfshópurinn ítarlega grein fyrir tillögum sínum að breytingum á gildandi laga- og reglugerðarákvæðum um sjóðinn.

            Í bréfinu kemur fram að ráðherra hefur skipað 3ja manna vinnuhóð með aðkomu Hagstofu Íslands og Samb. ísl. sveitarf. til að útfæra útgjaldamælingarkerfi.  Vinnuhópurinn hefur valið 10 sveitarfélög til að taka þátt í vinnu við mælingu á útgjaldaþörf sveitarfélaga og er Ísafjarðarbær eitt þeirra.

            Lagt fram til kynningar nú í bæjarráði.

 

8.         Bréf Íbúasamtakanna Átaks, Þingeyri. - Breytingar á samþykktum.

            2011-04-0093.

            Lagt fram bréf Íbúasamtakanna Átaks á Þingeyri, dagsett 11. apríl sl., þar sem greint er frá að á fundi samtakanna er haldinn var þann 5. apríl sl., voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum breytingar á samþykktum íbúasamtakanna.  Samþykktir Átaks falla nú að öllu leyti að samþykktum þeim, sem samþykktar voru af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir hverfaráð í Ísafjarðarbæ.

            Jafnframt kemur fram í bréfinu að Daðey Arnborg Sigþórsdóttir hefur verið kosin nýr formaður Íbúasamtakanna Átaks.

            Bæjarráð fagnar samþykkt Íbúasamtakanna Átaks á Þingeyri.

 

9.         Bréf Íbúasamtakanna Átaks, Þingeyri. - Fyrirhugaðar breytingar á

            almenningssamgöngum í Ísafjarðarbæ.  2011-03-0098.

            Lagt fram bréf frá Íbúasamtökunum Átaki, Þingeyri, dagsett 11. apríl sl., þar sem greint er frá samþykkt fundar samtakanna er haldinn var þann 5. apríl sl.  Í samþyktinni er harðlega mótmælt þeim hugmyndum að niðurskurði í almenningssamgöngum í Ísafjarðarbæ.

            Lagt fram í bæjarráði til kynningar, tekið fyrir aftur þegar málið verður tekið fyrir í heild sinni. 

 

10.       Bréf Íbúasamtaka Önundarfjarðar. - Fyrirhugaðar breytingar á

            almenningssamgöngum í Ísafjarðarbæ.  2011-03-0098.

            Lagt fram bréf frá Íbúasamtökum Önundarfjarðar dagsett 12. apríl sl. og varðar endurskoðun Ísafjarðarbæjar á almenningssamgöngum í Ísafjarðarbæ.  Á heildina litið er það álit íbúasamtakanna, að ekki sé gerlegt að skerða almenningssamgöngur milli byggðarlaga frá því sem nú er.

            Lagt fram í bæjarráði til kynningar, tekið fyrir aftur þegar málið verður tekið fyrir í heild sinni.

 

11.       Bréf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. - Drög að reglugerð um bann

            við dragnótaveiðum í fjörðum Vestfjarða.  2011-04-0098.

            Lagt fram bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti dagsett 19. apríl sl., þar sem fylgja drög að reglugerð um bann við dragnótaveiðum í fjörðum Vestfjarða.  Leitað er umsagnar sveitarfélagsins og er umsagnarfrestur til 10. júní 2011.

            Bæjarráð Ísafjarðarbæjar skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að hefja nú þegar öflugar rannsóknir á vistkerfi sjávar inná fjörðum Vestfjarða.

            Sérstaklega verði skoðuð áhrif veiðarfæra á vistkerfið, með samstarfi Hafrannsóknarstofnunar, Háskólaseturs Vestfjarða og Náttúrustofu Vestfjarða. Mjög skiptar skoðanir eru í samfélaginu um áhrif t.d. dragnótaveiða og takmörkuð þekking er til staðar um mikilvægi vistkerfis fjarðanna sem uppeldisstöðva sjávarfangs. Með slíku rannsóknarstarfi yrði skotið enn traustari fótum undir starfsstöð Hafrannsóknarstofnunar á Ísafirði, Háskólasetur Vestfjarða og starfsemi Náttúrustofu Vestfjarða en umfram allt er þó mikilvægast að efla þekkingu vísindasamfélagsins á vistkerfi fjarðanna.

 

 12.      Bréf Efnamóttökunnar hf. - Söfnunarstöðvar fyrir raftækjaúrgang.

            2011-04-0099.

            Lagt fram bréf frá Efnamóttökunni hf., dagsett þann 20. apríl sl. og stílað er á sveitarfélög og aðra rekstraraðila söfnunarstöðva með samning um söfnun raftækjaúrgangs.

            Erindinu vísað til nefndar um sorpmál í Ísafjarðarbæ.

 

13.       Bréf Gospelkórs Vestfjarða. - Styrkbeiðni.  2011-03-0146.

            Lagt fram bréf frá fjáröflunarnefnd Gospelkórs Vestfjarða dagsett 20. apríl sl., þar sem sótt er um styrk frá Ísafjarðarbæ að upphæð kr. 150.000.- til almenns rekstrar kórsins.

            Bæjarráð vísar erindinu til úthlutunar á hausti komanda.

 

14.       Bréf Sigurrósar E. Friðþjófsdóttur, danskennara. - Styrkbeiðni.

            Lagt fram bréf frá Sigurrós Evu Friðþjófsdóttur, Ísafirði, dagsett 27. apríl sl., þar sem sótt er um styrk frá Ísafjarðarbæ til að halda alþjóðlega dansdaginn þann 29. apríl n.k. hátíðlegan á Ísafirði.  Á Ísafirði verður danssýning í Edingorgarhúsinu og er það von bréfritara, að Ísafjarðarbær sjái sér fært að styrkja verkefnið um kr. 90.000.-.

            Bæjarráð vísar erindinu til úthlutunar á hausti komanda.    

 

15.       Bréf Samb. ísl. sveitarf.- Kynnisferð til Brussel 5.-9. júní 2011. 2011-04-0140.

            Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 27. apríl sl., þar sem gerð er grein fyrir kynnisferð sveitarstjórnarmanna til Brussel dagana 5.-9. júní n.k. Skráningarfrestur þátttakenda er til 9. maí n.k.

            Formaður bæjarráðs leggur til að einum fulltrúa frá hverju framboði til bæjarstjórnar, ásamt bæjarstjóra, verði gefinn kostur á að fara í þessa ferð.

 

 Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 09:10.

 

Þorleifur Pálsson, bæjarritari

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráð

Albertína Elíasdóttir

Arna Lára Jónsdótti

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri

Er hægt að bæta efnið á síðunni?