Atvinnu- og menningarmálanefnd - 86. fundur - 12. ágúst 2008

Mætt voru: Kristján G. Jóhannsson, formaður, Áslaug J. Jensdóttir, varaformaður, Sigurður Hreinsson, Kári Þór Jóhannsson og Guðmundur Þór Kristjánsson. Auk þeirra sat Halldór Halldórsson bæjarstjóri fundinn.


Kristján G. Jóhannsson ritaði fundargerð.



1. Áfangaskýrsla frá Alsýn 2008-05-0023


Steinþór Bragason frá Alsýn mætti á fundinn og lagði fram áfangaskýrslu vegna verkefna fyrir atvinnumálanefnd bæjarins fyrir tímabilið júní-ágúst 2008.  Nokkrar umræður urðu um skýrsluna.


Samkvæmt  2. gr. samnings milli Ísafjarðarbæjar og Alsýnar ehf. verður samningurinn endurskoðaður 17. ágúst 2008 og samþykkir  Atvinnumálanefnd að óska eftir endurskoðun samningsins og er bæjarstjóra falið að rita félaginu bréf þess efnis.


Steinþór Bragason vék af fundi kl. 13:00



2. Samstarf við Austur Grænland 2008-07-0001


Lögð fram greinargerð Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um ferð hans til Grænlands dagana 20.-21. júní.   Einnig lögð fram viljayfirlýsing milli utanríkisráðuneytis og Ísafjarðarbæjar um að vinna saman að úttekt á möguleikum þess að koma á auknum samskiptum og viðskiptum milli Grænlands og Ísafjarðarbæjar, með sérstakri áherslu á A-Grænland.  Samkvæmt yfirlýsingunni verður haft samráð við atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar.



3. Faroexpo í Runavík 2008-02-0008


Lagt fram erindi frá Runavik, vinabæ Ísafjarðarbæjar, í Færeyjum um Faroexpo, sem verður haldin í Runavik 20.-23. október nk. og er spurst fyrir um hvort fyrirtæki í Ísafjarðarbæ hefðu áhuga á þátttöku. Samþykkt að kanna áhuga fyrirtækja með auglýsingu.



4. Millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll 2007-09-0017


Atvinnumálanefnd ítrekar samþykkt sína frá fundi 5. febrúar 2008, sem hljóðaði svo:


Umræða var um flug frá Ísafirði til A-Grænlands og nauðsyn þess að samgönguyfirvöld opni völlinn fyrir flug að nýju. Vegna reglugerðarbreytinga má ekki nota flugvöllinn nema settar verði upp nauðsynlegar girðingar og tækjabúnaður til að uppfylla kröfur reglugerðar. Atvinnumálanefnd gerir kröfu um að hægt verði að fljúga um Ísafjarðarflugvöll í millilandaflugi. Aðstæður í dag vinna gegn nýsköpun í atvinnulífi svæðisins og möguleikum á að þróa þjónustu við A-Grænland.



5. Sögukort 2004-11-0094


Lagt fram erindi um sögukort Vestfjarða, en bærinn ákvað að styrkja verkefnið með því að kaupa 650 kort.  Óskað er eftir upplýsingum um hversu mörg kort á hverju tungumáli bærinn óskar eftir að fá.  Formanni falið að hafa samráð við forstöðumann Upplýsingamiðstöðvar ferðamála um málið.





6. Styrkumsókn frá Ferðaþjónustunni Grunnavík 2008-02-0095


Lögð fram styrkumsókn frá Ferðaþjónustunni Grunnavík.   Nefndin hefur ekki fjárheimildir til að styrkja einstaklinga eða fyrirtæki vegna stofnkostnaðar.





7. Fyrirspurnir frá bæjarfulltrúum


a. Lagðar voru fram fyrirspurnir bæjarfulltrúa frá 246 fundi bæjarstjórnar.


Frá Inga Þór Ágústssyni og Svanlaugu Guðnadóttur varðandi gögn sem ráðgjafafyrirtækið Alsýn hefur lagt fyrir á fundum atvinnumálanefndar.


Atvinnumálanefnd bendir á að bæjarfulltrúar hafa aðgang að trúnaðargögnum bæjarfélagsins, sé ekki öðru vísi ákveðið í lögum.


b. Bókun frá Jónu Benediktsdóttur varðandi umræður um raforkumál á Vestfjörðum.


Atvinnumálanefnd hefur rætt þau málefni og stefnir að því að taka þau til afgreiðslu á næsta fundi nefndarinnar.



8. Vatnsútflutningur 2007-07-0062


Bæjarstjóri Halldór Halldórsson gerði nefndinni grein fyrir hvernig undirbúningi að vatnsútflutningi liði.


Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 14:00


Kristján G. Jóhannsson, formaður


Áslaug J. Jensdóttir


Kári Þór Jóhannsson


Sigurður Hreinsson


Guðmundur Þór Kristjánsson


Halldór Halldórsson



Er hægt að bæta efnið á síðunni?