Atvinnu- og menningarmálanefnd - 74. fundur - 23. ágúst 2007

Mættir: Kristján G. Jóhannsson, formaður, Áslaug Jóhanna Jensdóttir, varaformaður, Guðmundur Þór Kristjánsson, Sigurður Hreinsson og Kári Þór Jóhannsson.


Halldór Halldórsson bæjarstjóri sat fund atvinnumálanefndar og ritaði fundargerð.


Þetta var gert:



1.  Merkingar fyrir ferðafólk.


Lagður fram tölvupóstur frá Áslaugu Jensdóttur um rangar merkingar í upplýsingum fyrir ferðafólk.


Atvinnumálanefnd óskar eftir því að Upplýsingamiðstöð ferðamála og Markaðsstofa Vestfjarða fari yfir slíkar upplýsingar og komi leiðréttingum á framfæri. Erindi Áslaugar sent til Upplýsingamiðstöðvar og óskað eftir því að miðstöðin sendi inn leiðréttingu.


    


2.    Samgöngumál ? hugmyndir um hálendisleið.


Lagt fram erindi Sigurðar Hreinssonar þar sem hann nefnir tillögu um vegamál, þ.e. hugmynd um hálendisleið af Dynjandisheiði sem komi niður á Klettsháls. Leiðin myndi styttast verulega væri þessi leið farin. Sigurður veltir fyrir sér hver áhrifin af slíkri vegalagningu yrði fyrir atvinnulífið.


Bæjarstjóri upplýsti að erindi um þessa vegalagningu hefur verið sent af hálfu bæjarráðs til samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga.


Atvinnumálanefnd telur styttingu vegalengda hafa verulega jákvæð áhrif fyrir atvinnulífið sé um að ræða heilsársleið. Öll stytting leiða lækkar flutningskostnað og gerir atvinnulífið á Vestfjörðum samkeppnishæfara.


 


3.    Stofnun félags til kaupa á aflaheimildum.


Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið atvinnumálanefnd að taka upp viðræður við stjórn Hvetjanda um hvort og þá hvernig mögulegt er að fella tillögur atvinnumála-nefndar um stofnun sérstaks hlutafélags um kaup á aflaheimildum að starfsemi Hvetjanda.


Atvinnumálanefnd hefur óskað eftir fundi með formanni stjórnar Hvetjanda og mun taka málið upp að nýju að slíkum fundi loknum.



4.    Átak til atvinnusköpunar í Ísafjarðarbæ. 2007-02-0139.


Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið atvinnumálanefnd að ræða við þá aðila sem tilgreindir eru í tillögu atvinnumálanefndar og koma átaki til atvinnusköpunar af stað.


Þeir sem eru væntanlegir samstarfsaðilar eru:


Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöð, Vaxtarsamningur Vestfjarða, starfsmenntasjóðir, Verkalýðsfélög, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Hvetjandi, Vinnumálastofnun og Byggðastofnun.


Verkefnið gengur út á að halda námskeið um stofnun fyrirtækja og rekstur og gera það aðgengilegra að stofna fyrirtæki og afla hlutafjár.


Atvinnumálanefnd telur nauðsynlegt að ráða sérstakan verkefnisstjóra til að sinna þessu verkefni og leiða saman þá aðila sem nefndir eru og vinna að því að skapa þau störf sem verkefnið á að leiða af sér. Auglýsa þarf sem fyrst eftir þeim sem taka vilja þátt í verkefninu.


Atvinnumálanefnd óskar eftir því við bæjarráð Ísafjarðarbæjar að fá heimild til að ráða verkefnisstjóra nú þegar. Óskað verður eftir stuðningi frá Byggðastofnun til að greiða verkefnisstjóranum laun.



5.    Snurvoðaveiðar ? erindi frá Íbúasamtökum Önundarfjarðar.   2007-06-0071.


Lagt fram bréf dags. 28. júní sl. frá bæjarstjóra f.h. bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þar sem óskað er eftir umsögn atvinnumálanefndar.


Formaður gerði grein fyrir því að sjávarútvegsráðuneytið hefur tilkynnt með bréfi dags. 20. ágúst sl. að ekki stendur til af hálfu ráðuneytisins að gera breytingar á gildandi reglum um dragnótaveiðar á Vestfjörðum.


Avinnumálanefnd telur ekki hlutverk sitt að gera upp á milli atvinnugreina né heldur aðferða við veiðar. Slíkt er frekar hlutverk sjávarútvegsráðuneytis og veiðafærasérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar.



6.   Vindmyllubúgarður ? erindi frá Sigurði Sigurðarsyni  2007-08-0065.


Lagt fram tölvubréf Sigurðar Sigurðarsonar verkfræðings dags. 7. júní sl. þar sem hann kynnir verkefni um hugsanlegan vindmyllubúgarð á Vestfjörðum í samvinnu við danska fyrirtækið Vestas.


Atvinnumálanefnd sendir erindið til Orkubús Vestfjarða til umsagnar.



7.   Vatnsmál ? viðræður við fjárfesta.  2007-08-0062.


Bæjarstjóri gerði atvinnumálanefnd grein fyrir stöðu mála í viðræðum við aðila vegna hugmynda um vatnssölu frá Vatnsveitu Ísafjarðarbæjar. Til stendur að skrifa undir viljayfirlýsingu á næstu dögum um samstarf Ísafjarðarbæjar og viðkomandi aðila.


Atvinnumálanefnd þakkar kynninguna.



8.    Olíuhreinsunarstöð ? staða málsins. 2007-04-0034.


Bæjarstjóri gerði atvinnumálanefnd grein fyrir stöðu mála varðandi olíuhreinsunarstöð og samskipti við Íslenskan hátækniiðnað vegna hugmynda um byggingu slíkrar stöðvar á Vestfjörðum.


Atvinnumálanefnd telur um áhugavert verkefni að ræða sem verði að skoða jákvæðum augum því um mikla atvinnu er að ræða og umsvif sem styrkja munu byggð á Vestfjörðum. Nefndin hvetur ríkisstjórnina til þess að sjá til þess að ekki verði litið fram hjá Vestfjörðum við úthlutun mengunarkvóta.


Áslaug Jensdóttir situr hjá við afgreiðslu þessa liðar.



9.   Vestjarðanefndin.   2007-02-0139.


Bæjarstjóri fór yfir helstu verkefni sem Vestfjarðanefndin fékk samþykkt. Samkvæmt skýrslunni mun verða ráðið í 85 störf frá júní 2007-júní 2009.


Atvinnumálanefnd fagnar því að byrjað er að auglýsa og ráða í störf. Einnig að Vestfjaraðnefndin starfar áfram og fylgir tillögunum eftir. Atvinnumálanefnd mun fylgjast náið með framgangi málsins.



Guðmundur Þór Kristjánsson vék af fundi kl. 18:10



10.  Sjávarþorpið Suðureyri ? tillögur frá bæjarstjóra.


Lagt fram minnisblað bæjarstjóra dags. 17. ágúst sl. sem og minnisblað Sævars Kristinssonar ráðgjafa dags. 12. ágúst sl. Tillaga er um að sækja um styrk til að ráða verkefnisstjóra til að halda klasaverkefninu Sjávarþorpið Suðureyri áfram og þróa það í þeim tilgangi að fjölga störfum og nýta verkefnið sem fyrirmynd í öðrum byggðarlögum bæjarins.


Atvinnumálanefnd er því samþykk að sótt verði um styrk til ráðningar verkefnisstjóra.



11.  Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir.  2007-02-0139.


Lögð fram yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðum sem eiga í erfiðleikum vegna samdráttar aflaheimilda o.fl.


Lagt fram til kynningar.



12.  Staða atvinnumála, starf atvinnumálanefndar.


Kristján G. Jóhannesson formaður fór yfir stöðu atvinnumála almennt, starf atvinnumálanefndar, skipulagsbreytingar framundan og starfsmannamál varðandi starf með atvinnumálanefnd.





13. Önnur mál


a) Ákveðið að halda næsta fund nefndarinnar í næstu viku. Verður hann boðaður sérstaklega.


b) Endurskoða þarf aðkomu að hátíðinni Útilífveran og athuga endurvakningu Siglingadaga.


c) Atvinnumálanefnd mun fara yfir málefni Upplýsingamiðstöðvar á næsta fundi. Forstöðumaður verður boðaður á þann fund til að ræða þau mál og fleiri sem tengjast styrkumsóknum o.fl.


d) Viðurkenning atvinnumálanefndar Virðisaukinn verður afhent í haust vegna ársins 2006.


e) Kári Þór Jóhannesson lét bóka að hann teldi ámælisvert að ekki skuli hafa verið ráðinn atvinnufulltrúi strax eftir að atvinnufulltrúi lét af störfum í vor.


f) Atvinnumálanefnd mun taka þjónustu við A-Grænland fyrir á næsta fundi. Markmiðið er að Ísafjarðarbær verði þjónustumiðstöð fyrir þjónustu við veiðiskip og námuvinnslu. Óskað er eftir að hafnarstjóri mæti á fundinn.


Fleira ekki gert, fundarbókin upplesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:40


Kristján G. Jóhannsson    


Áslaug Jóhanna Jensdóttir


Sigurður Hreinsson     


Guðmundur Þór Kristjánsson


Halldór Halldórsson     


Kári Þór Jóhannesson





Er hægt að bæta efnið á síðunni?