Almannavarnanefnd – sameinuð - 13. fundur - 29. desember 2012

Fundinn sátu: Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn, Sigurður Mar Óskarsson, fulltrúi björgunarsveita, Hermann Hermannsson, slökkviliðsmaður, Helgi Kristinn Sigmundsson, læknir FSÍ, Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og Jóhann Birkir Helgason, bæjartæknifræðingur voru í símasambandi og Anna Guðrún Gylfadóttir, byggingarfulltrúi sem einnig ritaði fundargerð.

 

Skrifstofa almannavarna var án rafmagns og var því símasambandslaus.  Haft var samband við fulltrúa í nefndinni í gegnum GSM síma nefndarmanna.

 

Dagskrá:

 

1.      Snjóflóðahætta í Ísafjarðarbæ og Súðavík

Á fundinn er mættur Rúnar Óli Karlsson frá Veðurstofu Íslands. Yfirlögregluþjónn sagði frá fundi sem hann átti með Veðurstofu Íslands og bað Rúnar Óla að segja stuttlega frá.

Rúnar Óli sagði að veðrið hefði gengið eftir eins og gert var ráð fyrir og ákveðið var að halda sömu stöðu og ákveðið var í gær á fundi almannavarna þar til kl. 14:30 en þá fundar veðurstofan.  Engin hætta er talin vera úr Kubba og Gleiðarhjalla.  Eyrarhlíð virtist hreinsa sig í gær þegar snjórinn blotnaði.  Staðan er ágæt þessa stundina.  Snjóflóðaeftirlitsmenn eru úti að meta aðstæður ásamt Vegagerðinni.

 

2.      Snjómokstur.

Veðurstofan óskaði eftir að leiðinni, Stórholt-Móholt-Árholt-Hafraholt yrði haldið opinni ásamt Urðarvegi ef til rýmingar kæmi þar.  Skutulsfjarðarbraut er í skoðun, lokun verður frá Bónus að áhaldahússbrekku ef til kemur.

 

3.      Tjón á húseignum.

Þak á nautgripahúsi á Hóli í Önundarfirði er við það að falla, björgunarsveit er á leiðinni til að aðstoða.  Þá sprakk upp útidyrahurð á Ísafirði í nótt og hafa björgunarsveitir verið að störfum í nótt.

 

4.      Súðavíkurhlíð

Ómar Már sagði frá því að um 60 manns hefðu komist með bát frá Súðavík til Ísafjarðar í gær en um 14 manns væru enn eftir í Súðavík.

 

5.      Varaaflstöð Orkubús Vestfjarða í Súðavík

Varaaflsstöð Orkubús Vestfjarða er á snjóflóðahættusvæði í Súðavík og mannskap þarf til að halda stöðinni gangandi.  Björgunarsveit fer reglulega í stöðina til að gæta að manni. 

Almannavarnanefnd tók þá ákvörðun að rýma húsnæðið og láta stöðina ganga mannlausa.

 

6.      Starfsemi Orkubús Vestfjarða

Haft var samband við Halldór Magnússon hjá Orkubúi Vestfjarða til að fá stöðu mála hjá þeim.

Varaaflstöðvar hafa dottið út og stendur viðgerð yfir á vélum á Ísafirði og í Bolungarvík, þetta hefur valdið miklum vandræðum.  Varaaflstöðin í Bolungarvík er á hættusvæði en veðurstofan hefur ekki miklar áhyggur af henni þessa stundina.  Starfsmenn OV eru með Tetrastöðvar og öruggt samskiptakerfi milli stafsmanna OV.  Olíuforði á díesel vélar er góður og ættu að geta keyrt vélarnar í nokkra sólarhringa.  Ekkert rafmagn er í sveitunum í Önundarfirði og hefur ekki tekist að ná því inn.  Mjólkárlína er úti.

Orkubú Vestfjarða veit ekkert um varaafl fyrir farsímakerfin, það er ekki tengt OV.  Bent var á að hafa samband við Mílu, Vodafone, Nova og Símann vegna þessa.

 

7.      Farsímasamband

Hlynur ræddi við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um farsímasamband á Vestfjörðum.  Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ætlar að kalla til farsímafyrirtækin vegna símkerfis.  Aðallega eru það örbylgjusendingar sem eru að detta út.

 

8.      Önnur mál

Almannavarnanefnd ræddi alvarlegt ástand varaafls og farsímakerfis og telur rétt að fá skýrslu frá OV um þær varaaflsstöðvar sem verið er að keyra. 

Símkerfi almannavarna liggur niðri vegna rafmagnsleysis sem og tölvukerfi,  ekkert varaafl er til að keyra húsnæðið. 

 

Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og undirrituð.  Fundi slitið kl. 13:25.

 

Jóhann Birkir Helgason

Hlynur H. Snorrason

Hermann Hermannsson

Sigurður Mar Óskarsson 

Helgi Kr. Sigmundsson

Ómar Már Jónsson

Anna Guðrún Gylfadóttir

Er hægt að bæta efnið á síðunni?