Sundlaugin í Reykjanesi 100 ára og Reykjanesskólinn 90 ára

Fjölskylda Aðalsteins Eiríkssonar stendur við nýju söguskiltin.
Fjölskylda Aðalsteins Eiríkssonar stendur við nýju söguskiltin.

Það var fallegt veður laugardaginn 5. júlí í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp þegar sett voru upp söguskilti um sundlaugina og skólann í Reykjanesi í tilefni 100 ára afmælis sundlaugarinnar í ár og 90 ára afmælis Reykjanesskólans í fyrra. Við þetta tækifæri var gamalt efni, myndir og gögn um sundkennsluna og skólahaldið fyrstu árin, sett inn á vef Reykjaness, á slóðina rnes.is/saga.

 

Um er að ræða efni úr fórum Aðalsteins Eiríkssonar fyrsta skólastjóra Reykjanesskólans (1934-1944) sem afkomendur Aðalsteins og Bjarnveigar Ingimundardóttur konu hans hafa nú gert aðgengilegt á stafrænu formi. Björk Pálsdóttir sá um verkefnið fyrir hönd fjölskyldunnar og Ólafur J. Engilbertsson hjá Sögumiðlun sá um gerð skiltanna.

 

Gestir sem komu áttu ánægjulega stund við söguskiltin og yfir kaffiveitingum á sal skólans. Á meðal gesta voru sveitungar, gamlir nemendur, kennarar og skólastjórnendur skólans, svo og afkomendur fyrrum skólastjórnenda. Aðstandendur þakka kærlega fyrir veitt framlög, en verkefnið naut styrkja frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, HS Orku, Háafelli og Ísafjarðarbæ.

 

Aðsenda grein skrifaði Ólafur Jóhann Engilbertsson.