Vika 40: Dagbók bæjarstjóra 2023

Skemmtiatriði á fjórðungsþingi.
Skemmtiatriði á fjórðungsþingi.

Dagbók bæjarstjóra dagana 2.-8. október.

Þessi vika hefur verið nokkuð pökkuð af alls konar viðburðum og svara erindum og tölvupóstum. Ég tók mér vikufrí í lok september og þurfti að vinna upp ýmis mál og tölvupósta sem biðu mín þegar ég kom heim.

Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu í vikunni og bar dagskráin keim af því að fjárhagsáætlunarvinnan er í fullum gangi. Gjaldskrár voru samþykktar og þó nokkrir viðaukar við fjárhagsáætlun þessa árs voru samþykktir. Allar fastanefndir bæjarins hafa fjallað um gjaldskrárnar, sumar oftar en einu sinni.

Við funduðum með formönnum hverfisráða í upphafi vikunar til að ræða áherslur í fjárhgasáætlun. Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga opið samtal við fomenn hverfisráðanna.

Á dagskrá vikunnar var líka sameiginlegur starfsmannafundur sviða á bæjarskrifstofum Ísafjarðarbæjar. Hugsunin er að fara yfir helstu mál sviðanna og miðla til starfsmanna.

Rannsóknarmiðstöð ferðmála sem staðsett er á Akureyri bauð til samfélagsfundar um sjálfbærni móttökusvæða skemmtiskipa á norðurslóðum. Þar var sagt frá rannsóknum sem gerðar voru meðal annars í Honningsvåg og Alta í Noregi og Ísafirði. Það er mikilvægt að geta deilt reynslu og þekkingu á milli svæða. Það var áhugavert fyrir mig að heyra að Alta er að taka á móti skemmtiferðakskipum á veturna en þrátt fyrir norðlæga legu þá eru veðuraðstæður þannig að þau geta komið. Það er allavega margt í gangi í þessu bransa og við erum farin af stað með okkar stefnumótun sem unnin verður í vetur.

Stefnumótun stjórnvalda um lagareldi var kynnt í vikunni. Ísafjarðarbær hefur átt í góðu samráði ráðuneytið í undirbúningsvinnunni og það hefur verið vandað til verka að mínu mati. Við höfum lagt áherslu að ramminn sé skýr, öflugt og hert etirlit með greininni, og störfin rannsóknum og eftirliti verði í nærumhverfi greinarinnar auk þess sem gjaldið sem rennur í Fiskeldissjóð renni beint til fiskeldissveitarfélaganna. Þessar áherslur hafa ratað að mörgu leyti inn í stefnumótunina og það skiptir máli.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, með Örnu Láru í heimsókn í sláturhúsi Arctic Fish.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, með Örnu Láru í heimsókn í sláturhúsi Arctic Fish.

Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið Í Bolungarvík. Auk hefðbundinna þingstarfa með fjölmörgum ályktunum, meðal annars um samgöngur, fiskeldi og orkumál, var fín umræða með fyrirlestrum um umhverfi og ímynd Vestfjarða. Svo er bara gaman að hitta aðra sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum. Bolungarvíkurkaupstaður bauð okkur svo í skoðunarferð um tvö fyrirtæki. Skoðuðum nýja sláturhúsið hjá Arctic Fish og Jakob Valgeir sem hefur verið í miklum endurbótum á sínu húsnæði.

Þrjú ungmenni úr ungmennaráði í pontu á fjórðungsþingi.
Ungmenni úr ungmennaráði í pontu á fjórðungsþingi.

Það var nýjung á þinginu þegar ungmenni úr ungmennaráði Vestfjarða fylgdu úr hlaði tillögu sem þau mótuðu um ungmennaþing og svöruðu svo spurningum þingfulltrúa. Einnig fylgdust þau með þingstörfum. Þau skelltu sér í nefnd sem fjallaði meðal annars um jarðgangakosti og samgöngur á Vestfjörðum sem þau höfðu sérstakan áhuga á. Tillagan þeirra um umgmennaþing var samþykkt einróma.

Bæjar- og sveitarstjórar átta sveitarfélaga á Vestfjörðum undirrita samninginn.
Bæjar- og sveitarstjórar átta sveitarfélaga á Vestfjörðum undirrita samninginn.

Við notuðum líka tækifærið á Fjórðungsþingi og skrifuðum undir samning um sérhæfða velferðaþjónustu á Vestfjörðum sem þýðir að Ísafjarðarbær verður leiðandi sveitarfélag á sviði barnaverndarþjónustu og þjónustu við fatlað fólk á Vestfjörðum.

Arna Lára og Guðlaugur Þór við undirritunina sem fór fram í Neðstakaupstað.
Arna Lára og Guðlaugur Þór við undirritunina.

Guðlaugur Þór umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra var gestur á fjórðungsþingi en notaði líka tækifærið og undirritaði friðlýsingu fyrir Skrúð og verndarsvæði í byggð í Neðstakaupstað.

Kápa bókarinnar Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda

Á laugardaginn var svo haldið útgáfuhóf og kvöldvaka fyrir bókina Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda en Ingi Björn ritstýrði bókinni ásamt Birnu Bjarnadóttur. Þetta var heilmikil menningarveisla með upplestrum og tónlist. Virkilega skemmtilegt.