Skipulagslýsing: Endurskoðun deiliskipulags á Suðurtanga

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar auglýsir skipulagslýsingu vegna endurskoðunar deiliskipulags á tveimur svæðum á Suðurtanga Skutulsfjarðareyrar:

  • Suðurtangi, hafnar- og iðnaðarsvæði
  • Suðurtangi, íbúðar- og þjónustusvæði

Endurskoðunin er unnin í samræmi við 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 2. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Hvati skipulagsbreytinganna er aukin eftirspurn atvinnulóða á Ísafirði síðustu misseri. Í núgildandi aðalskipulagi og ofangreindu deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir þeim umsvifum sem nú eru á svæðinu og eru fyrirséð, einkum í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi. Skapa þarf rými fyrir þessar og aðrar atvinnugreinar og samræma sífellt fjölbreyttari starfsemi hafnarinnar á Ísafirði. Ísafjarðarhöfn hefur þróast úr því að vera fyrst og fremst fiskihöfn yfir í það að þjóna fjölbreyttri flóru báta og skipa í takt við stefnu bæjarins og hafnarinnar.

Í báðum tilvikum endurskoðunar deiliskipulags er gert ráð fyrir nokkuð afgerandi breytingum og því var ákveðið að fara í heildarendurskoðun. Gildandi skipulag verður fellt úr gildi á báðum svæðum og nýtt tekur gildi í staðinn.

Tekin hefur verið ákvörðun um að falla frá íbúðarbyggð á Suðurtanganum og skapa aukið rými fyrir atvinnulóðir. Gert er ráð fyrir þessum breytingum á aðalskipulaginu við heildarendurskoðun þess. Vestara deiliskipulagið (Suðurtangi, íbúðar- og þjónustusvæði) fær því heitið Suðurtangi, iðnaðar-, athafna- og þjónustusvæði. Heiti eystra skipulagsins, Suðurtangi, hafnar- og iðnaðarsvæði, breytist ekki.

Skipulagslýsingin er unnin skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, greinargerð með forsendum og samhengi skipulagsgerðar, af Verkís ehf. dags. 1. september 2023 og er aðgengileg í afgreiðslu á bæjarskrifstofum Ísafjarðarbæjar og hér fyrir neðan:

Greinargerð

Athugasemdir við deiliskipulagslýsinguna skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgátt Skipulagstofnunar eða á skipulagsfulltrúa á skipulag@isafjordur.is fyrir 6. nóvember 2023.

Hægt er að óska eftir nánari leiðbeiningum varðandi skipulagsgáttina gegnum netfangið skipulag@isafjordur.is.

Skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar