Kynning vinnslutillögu vegna deiliskipulags Suðurtanga á Ísafirði

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar birtir til kynningar, vinnslutillögu breytinga á deiliskipulagi Suðurtanga, Ísafirði, í samræmi við III. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Markmiðið með endurskoðun deiliskipulaganna er að fjölga atvinnulóðum, meðal annars í sjávartengdri starfsemi, og samþætta fjölbreytta nýtingu á skipulagssvæðinu. Við útfærslu skipulagsins hefur verið lögð áhersla á öryggi vegfarenda, gæði byggðar, ásýnd svæðisins, varðveislu menningarminja og viðbrögð og varnir við sjávarflóðum. Séstaklega er hugað að gönguleiðum farþega skemmtiferðaskipa og samspili þeirra við starfsemi á Suðurtanga og Eyrinni. Sjálfbær þróun var höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku og útfærslu í skipulaginu. Samráð var haft við hagsmunaaðila á svæðinu við skipulagsgerðina.

Vinnslutillagan, uppdráttur og greinargerð, er unnin í mars 2024 af Verkís ehf.

Endurskoðun deiliskipulagsins er í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, 2. mgr. greinar 5.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og 2. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Samhliða deiliskipulagsgerðinni er unnin breyting á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar á sama svæði. Gert er eitt sameiginlegt umhverfismat fyrir deiliskipulagið og breytingu á aðalskipulagi.

Umsagnir og athugasemdir í skipulagsferlinu eru aðgengilegar í gegnum Skipulagsgáttina: skipulagsgatt.is, mál nr. 685/2023. Hægt að skila ábendingum við tillögugerðina, rafrænt um skipulagsgáttina eða til skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar: skipulag@isafjordur.is til 3. maí 2024, þar sem einnig er hægt að fá nánari upplýsingar og leiðbeiningar. Vinnslutillagan verður einnig aðgengileg á uppdrætti og greinargerð með forsendum breytinga ásamt umhverfismati, á bæjarskrifstofum.

Opið hús verður haldið á umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar, 4. hæð Stjórnsýsluhússins að Hafnarstræti 1 á Ísafirði, föstudaginn 12. apríl 2024 kl. 10:00 til 12:00.

Vakin er athygli á því að aðeins er um að ræða vinnslutillögu breytinga á deiliskipulagi en ekki formlega auglýsingu.

Skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar