Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 5
Dagbók bæjarstjóra dagana 29. janúar-4. febrúar 2024.
Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu í vikunni og þar var margt athyglisvert á dagskrá. Stóra málið má segja að hafi verið að bæjarstjórnin samþykkti að taka þátt í viðbyggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði, og bókaði sérstaklega af því tilefni að þetta væri mikilvægur þáttur í að efla alla Vestfirði og gera ungu fólki kleift að sækja iðnmenntun stutt frá heimahögunum. Nú er bara að sjá hvaða sveitarfélög á Vestfjörðum ætla að taka þátt í þessu stóra framfaraverkefni. Okkur veitir ekki af að efla iðnmenntun í ljósi þeirrar uppbyggingar sem er að eiga sér stað á kjálkanum.
Staða orkumála og möguleg Vatnsdalsvirkjun voru til umræðu í bæjarráði að ósk Gylfa formanns bæjarráðs. Þetta er gömul saga og síendurtekin. Það er skortur á orku á Vestfjörðum og við búum við raforkuóöryggi. Það er engin ein lausn á þessum vanda heldur þarf að skoða (og framkvæma) marga kosti. Þessir kostir þurfa að fullnægja orkuþörf og raforkuöryggi, og vera góðir fyrir umhverfi, samfélag og efnahag. Það er ekki nóg að tvöfalda línurnar heldur þarf að framleiða inn á þær líka. Vatnsdalsvirkjun gæti verið einn af þessum kostum. Bæjarráð samþykkti nokkuð langa umsögn um málið sem er í stuttu máli á þá leið að beina því til orku-, umhverfis- og auðlindaráðherra að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar að því marki sem þörf er á til þess að áfram verði hægt að vinna að rannsóknum og heildstæðri pólitískri umræðu um bætt raforkukerfi á Vestfjörðum og landinu öllu, uppbyggingu þjóðgarðs á svæðinu og stuðla þannig að umhverfisvernd og bættum þjóðarhag.
Bæjarstjórn samþykkti endurskoðaða húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem okkur ber að uppfæra árlega. Stóru línurnar eru þær að íbúum er að fjölga og það þarf að fjölga leikskólarýmum á Ísafirði og það þarf að huga að stækkun Grunnskólans á Ísafirði, svo ekki sé minnst á að það vantar húsnæði.
Hilmar hafnarstjóri kynnti drög að stefnu í móttöku skemmtilferðaskipa í fyrir hagaðilum í upphafi vikunnar, þar voru góðar og gagnlegar umræður og ekki annað heyra en að það væri góður hljómgrunnur fyrir stefnunni.
Bæjarstjórn samþykkti viljayfirlýsingu við Vélsmiðjuna Þrym um úthlutun lóðar á Sundabakka en þar hyggst fyrirtækið byggja upp enn frekar hafnsækna starfsemi sína og reka bátalyftu. Þetta á eftir að stórbæta þjónustu við útgerðaraðila, og sérstaklega þá sem hafa þurft að fara með bátana sína í aðra landshluta. Annars er nýtt deiliskipulag fyrir Suðurtangann á lokametrunum.
Verkefnisstjórn þróunarsjóðs Flateyrar fundaði í vikunni en þar er verið að fara yfir þær umsóknir sem bárust í sjóðinn. Þetta er síðasta úthlutunin þar sem verkefninu lýkur í sumar.
Samband íslenskra sveitarfélaga var með stöðufund um stöðuna í Grindavík með framkvæmdastjórum sveitarfélaga, almannavörnum og Sigurði Inga innviðaráðherra. Það er mikil samkennd í þessum hópi að standa með Grindavík og styðja eins og hægt er. Þetta leggst auðvitað mest á sveitarfélögin á Reykjanesskaganum og stórhöfuðborgarsvæðinu.
Almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps og Vestfjarðastofa fundaði með dómsmálaráðuneytinu vegna neyðafjarskipta, þar fengum við tækifæri til að fylgja eftir áskorun til stjórnvalda sem nefndin gerði í desember í fyrra um að skilgreina farsímakerfi og Tetrakerfi sem mikilvægt öryggiskerfi fyrir almannavarnir á landinu, en kerfið á Vestfjörðum er ekki nógu þétt og eru staðir þar sem ekkert samband er eða lélegt.
Mynd: Litli leikklúbburinn.
Annars er dagbókin frekar snubbótt þessa vikuna en það er ekki hægt að loka henni án þess að minnast á Fiðlarann á þakinu. Ég var með stjörnur í augunum allan tímann og þetta er hreint út sagt frábær sýning. Takk fyrir mig Litli leikklúbburinn og Tónlistarskóli Ísafjarðar! Til hamingju öll þið sem stóðuð að þessu. Það sem þetta samfélag er ríkt af hæfileikaríkufólki.