Stjórnarfundur 8. apríl 2024
Fundur Hverfisráðs Önundarfjarðar haldinn mánudaginn 8. apríl kl 17:00 á Bryggjukaffi.
Mætt; Hrefna Erlinda Valdemarsdóttir, Kristbjörg Sunna Reynisdóttir, Guðmundur Björgvinsson, Sigríður Anna Emilsdóttir og Ívar Kristjánsson. Steinunn Ása Sigurðardóttir boðaði forföll.
Dagskrá:
1. Grendarkynning- Útsýnispallur við Brimnesveg- Athugasemdum þarf að skila 18. apríl í síðasta lagi.
Athugasemdir frá Hverfisráði Önundarfjarðar:
Það væri æskilegt að rampinn upp á stærri pallinn við enda Tjarnargötu yrði speglaður og pallurinn færður upp fyrir gatnamótin um 20- 30 metra til norðurs vegna snjóþyngsla, snjómoksturs, nálægðar við íbúðir, nálægðar við gatnamót og með tilliti til umferðar öryggis og gangandi vegfarenda. Tröppur niður að sjó við stærri pallinn verða að vera öflugar járntröppur og sleppa millipalli þar sem mjög mikið brim getur verið.
Rampur við minni pall þarf að vera sunnan við pallinn vegna plássleysis og skoða hvort rampur getur verið einfaldur með hvíldarpalli.
Verði um gróðursetningu á svæðinu að ræða viljum við hvetja til þess að vel verði hugað að hvaða gróður þolir ágang sjávar og þarf sem minnst viðhald til að ekki verði þarna óræktarsvæði.
Ferðamenn ganga gjarnan frá kirkjunni upp Öldugötu og príla þar uppá grjótgarðinn. Mætti bæta við færanlegum tröppum þar? Þyrftu að vera þannig að þær stæðu innan við grjótvörnina og í þeirri hæð að vel sæist yfir, en ekki tengja þær upp á rofvörnina.
Hverfisráð óskar eftir því að hönnuðir komi á staðinn til nánara viðtals um staðsetningu, aðstæður og útfærslu.
2. Fegrun bæjarkjarna- við sendum inn lista í október vegna fjárhagsáætlunar - förum yfir stöðuna og sendum athugasemdir.
Listinn uppfærður:
Öryggi
Leikskólalóðina þarf að endurnýja, sem allra fyrst. Er komin á framkvæmdaáætlun er þyrfti að flýta.
Sinna þarf viðhaldi á skólahúsum leik- og grunnskóla.
Laga þarf umferðarskilti og götumerkingar og bæta við þar sem vantar, eitthvað er þegar búið að framkvæma en ennþá vantar uppá að klára. T.d. vantar botnlangamerki á Unnarstíg. Víða eru merkin lág og hætta á að rekast í þau. Hæð merkja innanbæjar á að vera 2,3 m.
Setja upp skilti sem bannar akstur annarra en þeirra sem eru í hjólastól inn í A ið.
Bæta þarf við götulýsingu frá horninu á Brimnesvegi og Tjarnargötu og út að enda snjóflóðavarnargarða (enda Ólafstúns).
Gera þarf úttektarmælingu á sjóvarnargarðinum við Brimnesveg, sýnilega farinn að síga á köflum.
Eftir sjógang síðasta haust þarf að huga að sjávarrofi við Hafnarstrætið og með hvaða hætti hægt væri að halda sem mest í eðlilegt fjöruborð og grundina þarna, tillaga um hugmyndaflug og skipulag, einskonar samkeppni heima fyrir, með aðstöðu fyrir kajaka og litla báta, smábryggju eða hvaðeina sem fólki gæti dottið í hug. Væri möguleiki á að þvergarður sem kæmi skáhallt við enda stálþils framan við Svartapakkhúsið myndi verja grundina og Hafnarstrætið?
Viðhald gatna og göngustíga
Malbika þarf götur eftir reglulegu skipulagi, nú eru Brimnesvegur, Tjarnargata, Túngata og Öldugata þær sem verst eru farnar en margar aðrar farnar að láta á sjá. Setja þarf malbik á kaflann frá Hafnarstræti að smábátahöfn, mikið ryk myndast þar.
Innan við sjóvarnargarðinn við Brimnesveg er mjög ósnyrtilegt vegna lúpínu, best væri að malbika veginn í fullri breydd.
Lagfæra þarf göngustíginn á milli Drafnargötu 4 og 6 (Hrannargata). Hann er orðinn hættulegur í myrkri, gróður úr sér vaxinn og hellur aflagaðar. Þyrfti að fjarlægja tré, laga hellur og bæta lýsingu.
Laga mætti göngustíg frá Vallargötu að Brimnesvegi, Hreiðurstígurinn. Bera í hann unnið efni og jafna.
Skipta þarf út ruslafötum sem eru ljótar eða ónýtar. Möguleiki að mála þær ljótu, efnum til samkeppni, úrslit kynnt á götuhátíð.
Minningargarðurinn:
Laga/hækka aparóluna
Bæta við fleiri leiktækjum t.d. rólum
Hjólabrautin:
Fara í frekari framkvæmdir. Heyra í krökkunum sem eru farin að nota brautina og laga hana til og fá þeirra hugmyndir um hverju ætti að bæta við.
Borð og bekkir:
Fá bekk og borð á Oddann rétt við landtöku Sæunnarsunds, setja bekk yst á Oddann þar sem brimvarnargarðurinn lækkar þannig hægt sé að njóta útsýnisins.
Sláttur:
Afar mikilvægt er að okkar mati að ráðast á alla lúpínu og kerfil innan bæjarmarka. Eitt slíkra svæða er við Ólafstún ofan við kirkjugarðinn en þar er kerfill að breiða hratt úr sér. Huga sérstaklega að því að slegið sé fyrir bæjarhátíð sem haldin er síðustu helgina í júní og fyrir Verslunarmannahelgi. Meðal þess sem þarf að huga að fyrir Verslunarmannahelgi er sláttur á bletti þar sem Íslandsmótið í kubb fer fram á vegum Íþróttafélagsins Grettis. Athuga hvort möguleiki er að fá slátt á afmörkuð svæði á frisbígolfvelli.
Hirða mætti betur um Jóhönnulundinn sem er neðan við veg við innkomu í bæinn. Slá oghirða um útivistarsvæðið inni í A-inu (Merarhvammur).
Það er ósk okkar að sláttur verði þannig skipulagður að ásýnd þorpsins verði snyrtileg allt sumarið.
Sparkvöllurinn:
Bera á grindverk.
Laga net í mörkum.
Aðstaða fyrir ferðamenn (og heimamenn)
Þvottaplan fyrir bíla og einnig að geta fengið loft í dekk. Vantar eftir að N1 lokaði. Þarf að huga að frárennslislögn. Möguleg staðsetning við höfnina.
Vantar aðstöðu til að losa ferðasalerni. Möguleg staðsetning við væntanlega skólphreinsistöð á Oddanum.
Hreinlætisaðstaða við tjaldsvæði, heitt vatn, sturtur.
Holtsbryggjan:
Setja upp hreinlætisaðstöðu og vatn fyrir þá sem sækja fjöruna heim, setja borð og bekki.
Fjöldi þeirra sem sækja fjöruna heim hefur margfaldast. Laga veginn að Holtsbryggju.
Koma ljósi á bryggjuendann vegna öryggis við fólksflutninga einkum þegar vegurinn er lokaður um ströndina.
Kamburinn:
Gera færanlegar tröppur/palla sem geta staðið við sjóvarnargarðinn á sumrin, til að gera upp og niðurgöngu öruggari, á síðasta sumri voru sum kvöld 50-60 manns sitjandi á grjótinu að njóta sólarlags og náttúrufegurðar. Möguleg viðbót við útsýnispallinn sem er styrkumsóknarferli.
3. Er eitthvað annað sem við viljum að formaður komi til skila á næsta mánaðarlega fundi með bæjarstjóra, verkefnastjóra og bæjarritara 10. apríl ?
Það þarf að klára að gera við íþróttahúsið og sundlaugina, varmaskiptirinn er enn í áhaldahúsinu, kalt í salnum, sturturnar eru alls ekki alltaf heitar. Tækin i ræktinni eru biluð meira og minna. Neðsti bekkurinn í gufunni er brotinn og mjög hættulegur. Bekkur karlaklefa var brotinn og nú er búið að gera við hann með fúski. Starfsfólk þarf að fá betri kennslu á þau tæki og tól sem þarf til að sinna starfinu. Skúringavél er biluð og rafmagnsvinda til að draga dúk yfir laugina hefur verið biluð. Hvers vegna er ekki forstöðumaður í starfsstöðinni? Við erum ánægð með núverandi starfsmann og treystum henni til starfsins.
Hvað verður gert við tjaldsvæðið á Flateyri verður rekstur þess boðinn út ?
Fundi slitið 18:35
Ritari Sunna Reynisdóttir