119 milljón króna afgangur af rekstri Ísafjarðarbæjar

Bæjarstjórn hefur vísað ársreikningi Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir starfsárið 2023 til síðari umræðu en fyrri umræða fór fram á 533. fundi bæjarstjórnar þann 2. maí.

Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, sýnir ársreikningurinn að rekstur Ísafjarðarbæjar sé að styrkjast. „Rekstur Ísafjarðarbæjar gekk vel á síðasta ári þrátt fyrir áskoranir í rekstri sveitarfélaga, auk þess sem viðbótarframlag til lífeyrissjóðsins Brúar hafði neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Afkoma Ísafjarðarbæjar árið 2023 er jákvæð og skilar nú afgangi sem nemur 119 milljónum króna en afkoma Ísafjarðarbæjar var neikvæð um 109,6 m.kr árið 2022.“

Að sögn Örnu eru mörg jákvæð teikn á lofti. „Skuldahlutfallið er að lækka, það var 138,8% árið 2022 en er 133,5 % árið 2023. Skuldahlutfallið hjá A-hluta er 121,8% en var 124,7% árið 2022. Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Skuldaviðmið A og B hluta er 86,5% og 81,1% fyrir A-hluta.

Veltufé frá rekstri er að aukast sem um munar á milli ára sem styrkir getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdum og öðrum skuldbindingum.“

„Við erum sveitarfélag í vexti með bjarta framtíðarsýn, með öfluga atvinnuþróun, innviðafjárfestingu og íbúafjölgun,“ segir Arna. „Við þurfum að vera í stakk búin til að mæta þeirri auknu þjónustuþörf sem slíkri uppbyggingu óhjákvæmilega fylgir. Með fjölgun íbúa og fjölbreyttum atvinnutækifærum aukast rekstrartekjur sveitarfélagsins og með vaxandi sveitarfélagi verður rekstur Ísafjarðarbæjar skilvirkari. Við stöndum frammi fyrir stórum innviðaverkefnum og viðhaldsverkefnum, til að mynda varðandi skólahúsnæði, nýja slökkvistöð svo eitthvað sé nefnt á löngum lista framkvæmdaáætlunar sveitarfélagsins. Til þess að sveitarfélagið geti staðið undir þeim mikilvægu verkefnum og að sama skapi veitt góða þjónustu þarf reksturinn að vera traustur og skila nægjanlegri framlegð. Við þurfum því að halda áfram á þessari jákvæðu vegferð og treysta enn frekar rekstrargrundvöll sveitarfélagsins, auka skilvirkni í rekstri allra málaflokka, gæta aðhalds og vinna að því að skapa aðstæður fyrir öfluga atvinnuuppbyggingu á svæðinu.“

Hér fyrir neðan er samantekt um helstu niðurstöður ársreikningsins en nánar má lesa um starfsemi bæjarins í ársskýrslu ársreiknings.

Tekjur
Rekstrartekjur námu 7.349 m.kr. og voru 23 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Af því eru skatttekjur 104 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Skatttekjur námu samtals 5.025 m.kr. Aðrar tekjur eru 127 m.kr lægri en áætlun gerði ráð fyrir.

Laun
Laun og launatengd gjöld voru 3.562 m.kr. en í áætlun með viðaukum var gert ráð fyrir 3.533 m.kr. Heildarfjöldi starfsfólks Ísafjarðarbæjar í árslok 2023 var 428. Rekstrargjöld voru 29 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstur
Ársreikningurinn sýnir rekstrarafgang upp á 119 m.kr. fyrir samantekinn rekstrarreikning A- og B-hluta. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir rekstrarafgang upp á 273 m.kr. Rekstrarniðurstaðan A- og B-hluta er því 154 m.kr. neikvæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Vegur þar þyngst viðbótarframlag til A deildar Brúar lífeyrissjóðs upp á 110 m.kr. en í október 2023 tók stjórn Brúar ákvörðun um að innheimta launagreiðendur um 10% af greiddum lífeyri vegna þess að tryggingaleg staða A deildar Brúar var neikvæð.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 61 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 34 m.kr. Rekstrarniðurstaðan A-hluta er því 95 m.kr. neikvæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Þar vegur jafnframt þyngst viðbótarframlag til A deildar Brúar lífeyrissjóðs upp á 110 m.kr.

Eigið fé, skuldir og fjárfestingar
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 1.640 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta en eigið fé A-hluta var 564 m.kr. Eiginfjárhlutfall A og B hluta var 14,3% en var 12,2% árið áður.

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum, eða skuldahlutfall A og B hluta er 133,5% en var 138,8% árið 2022. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 121,8% en var 124,7% árið 2022. Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Skuldaviðmið A og B hluta er 86,5% og 81,1% fyrir A hluta.

Fjárfest var fyrir rúmar 743 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2023 en áætlaðar fjárfestingar voru 814,4 m.kr. Umsvifamestu fjárfestingarnar sneru að fasteignum og öðrum mannvirkjum Eignasjóðs (um 257 m.kr.), hafnarframkvæmdum (um 347 m.kr.) og fráveituframkvæmdum (um 68 m.kr.). Á árinu 2023 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 500 m.kr. Handbært fé hækkaði um 305 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2023 kr. 563 m.kr.