Íþrótta-og tómstundanefnd - 69. fundur - 5. desember 2006
Á fundinn mættu: Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður, Ingólfur Þorleifsson, Þórdís Jóna Jakobsdóttir, Stella Hjaltadóttir, Svava Rán Valgeirsdóttir og Ingibjörg María Guðmundsdóttir, yfirmaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu.
Fundargerð ritaði Ingibjörg María Guðmundsdóttir.
Þetta var gert:
1. Fjárhagsáætlun 2007. 2006-10-0014
Farið yfir stöðuna við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.
2. Forvarnir í víðum skilningi. 2006-09-0063
Lagt fram bréf bæjarráðs þar sem óskað er eftir umsögn íþrótta- og tómstundanefndar um forvarnir hjá barnavernd. Einnig lagt fram bréf Ingibjargar Maríu Guðmundsdóttur, um hugmyndir barnaverndar varðandi forvarnir.
Íþrótta- og tómstundanefnd telur jákvætt að fela ákveðnum aðila að hafa yfirsýn yfir forvarnir í heild, en telur að virkja megi betur Vá Vest og einstaklinga í grasrótinni ef skipaður verður samræmingaraðili og jafnvel verkefnastjóri fyrir málefnið.
3. Nýting og gjald fyrir íþróttahúsið á Þingeyri.
Lagt fram minnisblað frá forstöðumanni íþróttahússins á Þingeyri, þar sem hún leggur til opnunartíma í jólafríi skólans og einnig jólatilboð á verð í sal og sund.
Íþrótta- og tómstundanefnd fagnar framtaki forstöðumanns, til að efla nýtingu hússins og leggur til við bæjarstjórn að forstöðumenn fái leyfi til að aðlaga gjaldskrá, til að auka tekjur á dauðum tímum, sbr. jólafrí grunnskólanna.
Nefndin leggur til að forstöðumaður í samráði við yfirmenn fái leyfi til að leigja sal með 40-50% afslætti, ef um er að ræða tíma, sem ella yrði ekki nýttir í jólafríi.
4. Heilsuefling í Ísafjarðarbæ. 2006-11-0105
Lagt fram bréf frá bæjarráði þar sem erindi frá Línu B. Tryggvadóttur varðandi heilsueflingu í Ísafjarðarbæ er sent íþrótta- og tómstundanefnd til skoðunar. Lína er að óska eftir styrk frá Ísfjarðarbæ fyrir næstu verkefni.
Íþrótta- og tómstundanefnd telur hugmyndir hópsins góðar og telur rétt að HSV fái umsóknina til umfjöllunar og afgreiðslu með væntanlegum endurnýjuðum samningi milli Ísafjarðarbæjar og HSV.
5. Íþróttamaður ársins 2006.
Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundafulltrúa, dagsett 1. desember s.l., þar sem íþróttafélög eru beðin um að tilnefna til kjörs íþróttamanns árisins 2006. Einnig lögð fram reglugerð fyrir vali á íþróttamanni ársins í Ísfjarðarbæ og gátlisti vegna kjörsins.
Íþrótta- og tómstundanefnd telur að í bréfi til íþróttafélaga eigi að samræma tilnefningar þannig að tilnefndir verði einstaklingar, sem eru eldri en 14 ára og iðka íþrótt sína í Ísafjarðarbæ með íþróttafélagi á svæðinu.
Nefndin beinir því til íþróttafélaga, að viðurkenningar félaga verði veittar á lokahófi þeirra. Íþrótta- og tómstundanefnd felur formanni að endurskoða reglugerð um íþróttamann Ísafjarðarbæjar í samvinnu við íþrótta- og tómstundafulltrúa og framkvæmdastjóra HSV.
6. Útlán og leiga á sundfötum og handklæðum til grunnskólakennslu.
Formaður upplýsti um nýtingu grunnskóla á sundfötum/handklæðum vegna íþróttakennslu og hugmyndir um skráningu og gjaldfærslu á slíkri þjónustu.
Íþrótta- og tómstundanefnd felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að útbúa drög að reglum og óska eftir samvinnu við grunnskólafulltrúa. Drögin verði lögð fyrir næsta fund nefndarinnar.
7. Uppsögn forstöðumanns Skíðasvæðis. 2006-11-0120
Kynnt uppsögn forstöðumanns Skíðasvæðis Jóhanns K.Torfasonar, sem tók gildi þann 1. desember s.l., en Jóhann tók þann dag við nýju starfi.
Íþrótta- og tómstundanefnd þakkar Jóhanni K. Torfasyni fyrir samstarfið undanfarin ár og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
8. Sparkvöllur á Suðureyri.
Lagt fram bréf frá Svövu Rán Valgeirsdóttur, formanni Stefnis á Suðureyri, dagsett 3. desember 2006, þar sem óskað er eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um hugsanlega aðkomu félagsins að staðarvali og uppbyggingu sparkvallar á Suðureyri.
Íþrótta- og tómstundanefnd vísar erindinu til HSV og tæknideildar Ísafjarðarbæjar, sem hefur umsjón með umhverfismálum og eignasjóði.
Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:38.
Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður.
Þórdís Jóna Jakobsdóttir.
Ingólfur Þorleifsson.
Stella Hjaltadóttir.
Svava Rán Valgeirsdóttir.
Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu.