Menningarmálanefnd
117. fundur
Árið 2005, þriðjudaginn 25. október kl. 15:00 hélt menningarmálanefnd fund á skrifstofu Ísafjarðarbæjar á 2. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Hansína Einarsdóttir, aðalmaður í menningarmálanefnd var fjarverandi, sem og varamaður hennar.
Þetta var gert.
1. Safnahúsið Eyrartúni. - Almenn þjónusta og opnunartímar. 2005-09-0050.
Til fundar við menningarmálanefnd er mættur Jóhann Hinriksson, forstöðumaður Safnahúss.
Tekið fyrir erindi frá Áslaugu S. Alfreðsdóttur, sem lagt var fram á síðasta fundi menningarmálanefndar, er varðar opnunartíma og almenna þjónustu í Safnahúsi Eyrartúni.
Menningarmálanefnd felur Jóhanni Hinrikssyni, forstöðumanni, að gera drög að stefnumótun vegna þjónustu í Safnahúsinu. Stefnt er að því að leggja drögin fyrir á næsta fundi menningarmálanefndar.
2. Samstarf Bæjar- og héraðsbókasafnsins Ísafirði og Bókasafns- og upplýsingafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.
Lagður fram samstarfssamningur á milli Bæjar- og héraðsbókasafnsins Ísafirði og Bókasafns- og upplýsingafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, dagsettur 10. október 2005. Markmið samstarfsins er að mynda tengsl á milli háskólanáms í bókasafns- og upplýsingafræðum og starfsemi almenningsbókasafns á vettvangi, báðum aðilum til hagsbóta.
Menningarmálanefnd staðfestir samstarfssamninginn.
3. Starfsemi Bæjar- og héraðsbókasafnsins almennt.
Jóhann Hinriksson, forstöðumaður, upplýsti menningarmálanefnd
um endurskipulagningu á starfsemi bókasafnsins á Þingeyri.
Jafnframt gerði hann menningarmálanefnd grein fyrir væntanlegum styrkumsóknum í
Safnasjóð.
Jóhann gerði og grein fyrir uppsetningu á vef ljósmyndasafnsins, sem styrktur var af
Þjóðhátíðarsjóði.
4. Tendrun jólaljósa í Ísafjarðarbæ 2005.
Lögð fram tillaga að tímasettri dagskrá vegna tendrunar jólaljósa í Ísafjarðarbæ fyrir jólin 2005.
Tendrun á Ísafirði laugardaginn 3. desember n.k.
Tendrun á Suðureyri sunnudaginn 4. desember n.k.
Tendrun á Flateyri laugardaginn 10. desember n.k.
Tendrun á Þingeyri sunnudaginn 11. desember n.k.
Nánari upplýsingar um tímasetningu og dagskrána á hverjum stað liggi fyrir á næsta fundi menningarmálanefndar, sem verður fljótlega í nóvember n.k.
5. Bréf Karlakórsins Ernis. - Styrkbeiðni. 2005-10-0041.
Lagt fram bréf frá Karlakórnum Erni dagsett 15. október s.l., þar sem kórinn er að óska eftir styrk til starfsemi sinnar.
Erindið tekið fyrir við styrkveitingar á árinu 2006.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 16:10.
Þorleifur Pálsson, ritari.
Inga Ólafsdóttir, formaður.
Sigurborg Þorkelsdóttir.