Bæjarráð Ísafjarðarbæjar
460. fundur
Árið 2005, mánudaginn 5. desember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Þetta var gert:
1. Fundargerð nefndar.
Almannavarnanefnd 29/11. 58. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Atvinnumálanefndar 30/11. 60. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
4. liður. Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
2. Afrit bréfs bæjarstjóra til heilbrigðisráðherra. - Sjúkraflug í Ísafjarðarbæ. 2005-08-0018.
Laft fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til
Jóns Kristjánssonar, heilbrigðisráðherra, dagsett 29. nóvember s.l. Í bréfinu er
bæjarstjóri að óska eftir svörum um hvort heilbrigðisráðuneytið hyggst fara eftir
áður sendri beiðni bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, um m.a. að staðsetja
sjúkraflugvél á Ísafirði þar til bætt hefur verið úr aðflugsskilyrðum á
Ísafirði eða Þingeyri.
Jafnframt er lagt fram bréf frá Landsflugi ehf., dagsett 28. nóvember s.l., er varðar
sjúkraflug frá Vestfjörðum og flug á milli Ísafjarðar og Bíldudals.
Bæjarráð óskar eftir fundi hið fyrsta með heilbrigðisráðherra, um þau málefni sem tíunduð eru í bréfi bæjarstjóra til ráðherra og í bréfi Landsflugs ehf., til Ísafjarðarbæjar.
3. Bréf Víðirs Ólafssonar, stöðvarstjóra Funa. - Uppsögn á starfi. 2005-12-0010.
Lagt fram bréf Víðis Ólafssonar, stöðvarstjóra Sorpbrennslunnar Funa, dagsett þann 25. nóvember s.l. Í bréfinu óskar Víðir eftir lausn frá starfi svo skjótt sem auðið er og ekki síðar en 31. desember 2005.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að leita leiða til að verða við erindinu. Bæjarráð þakkar Víði Ólafssyni fyrir vel unnin störf í þágu Ísafjarðarbæjar og óskar honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
4. Bréf bæjarstjóra. - Félagsbær, félags- og menningarmiðstöð á Flateyri. 2005-11-0052.
Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til Félagsbæjar, félags- og menningarmiðstöðvar á Flateyri, dagsett þann 29. nóvember s.l. Í bréfinu fjallar bæjarstjóri um umsókn félagsins, um fjárstyrk að upphæð kr. 1.000.000.-, vegna uppbyggingar og reksturs og vegna endurskoðunar samstarfssamnings Félagsbæjar og Ísafjarðarbæjar. Í bréfinu óskar bæjarstjóri eftir frekari upplýsingum um fjármál félagsins.
Lagt fram til kynningar.
5. Bréf bæjarstjóra Vesturbyggðar. - Vígsla Íþróttamiðstöðvarinnar Bröttuhlíðar á Patreksfirði. 2005-12-0011.
Lagt fram bréf frá Guðmundi Guðlaugssyni, bæjarstjóra Vesturbyggðar, dagsett þann 24. nóvember s.l., þar sem boðið er til vígslu Íþróttamiðstöðvarinnar á Patreksfirði 10. desember n.k. kl. 14:00.
Bæjarráð þakkar boðið og óskar íbúum Vesturbyggðar til hamingju með glæsilegt íþróttamannvirki.
6. Bréf bæjartæknifræðings. - Útboð á eldsneyti. 2005-12-0003.
Lagt fram bréf frá Jóhanni B. Helgasyni, bæjartæknifræðingi, dagsett 2. desember s.l., varðandi útboð á eldsneyti fyrir stofnanir Ísafjarðarbæjar. Í bréfinu er óskað heimildar til að bjóða út kaup á eldsneyti.
Bæjarráð samþykkir beiðni bæjartæknifræðings.
7. Endurskoðun á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. 2005-11-0049.
Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, til Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett þann 5. desember 2005, er varðar athugasemdir Ísafjarðarbæjar vegna endurskoðunar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á 458. fundi bæjarráðs var fjármálastjóra falið að taka saman athugasemdir Ísafjarðarbæjar og leggja fyrir bæjarráð.
Bæjarráð felur bæjarritara að koma athugasemdum Ísafjarðarbæjar á framfæri við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Jafnframt verði Fjórðungssambandi Vestfirðinga sendar athugasemdirnar.
Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:50.
Þorleifur Pálsson, ritari.
Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.
Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.
Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.