Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

444. fundur

Árið 2005, mánudaginn 15. ágúst kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 9/8.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 10/8.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin staðfest

2. Útleiga íþróttahússins á Torfnesi vegna góðgerðartónleika. 2005-06-0075

Lögð fram tillaga frá Skúla Ólafssyni forstöðumanni Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar. Tillagan er í samræmi við tillögu forstöðumanns sem lögð var fram á fundi bæjarráðs 25. júlí sl. og í takt við umræður á þeim bæjarráðsfundi.
Í tillögunni er gert ráð fyrir að leigufjárhæð verði 60.000 kr. í stað 178.160 kr. þannig að Ísafjarðarbær styrkir framtakið um mismuninn. Ábyrgðarmaður er Kristín Hálfdánsdóttir.

Bæjarráð samþykkir tillögu forstöðumanns og felur honum að gera skriflegan samning við ábyrgðarmann um afnot af íþróttahúsinu.

3. Bréf ÍTH, verkefnið Ung I Norden – 2005-08-0014

Lagt fram bréf frá verkefnisstjórn Ung I Norden dags. 7. ágúst sl. Í bréfinu er þakkað fyrir þáttöku Ísafjarðarbæjar í verkefninu og þess getið að fulltrúar Ísafjarðarbæjar hafi staðið sig með mikilli prýði.

Vísað til íþrótta- og tómstundanefndar.

4. Bréf og fylgigögn frá forstöðumanni S&F um niðurgreiðslu leikskólagjalda í öðrum sveitarfélögum. 2005-08-0022

Lagt fram bréf Skúla Ólafssonar forstöðumanns S&F dags. 12. ágúst sl. þar sem fjallað er um umsókn foreldris sem stundar nám við Háskólann á Bifröst og óskar eftir því að Ísafjarðarbær niðurgreiði leikskólagjöld hjá Borgarbyggð.

Bæjarráð vísar erindinu til frekari úrvinnslu hjá bæjarstjóra.

5. Forkaupsréttur að Skólagötu 6 Suðureyri – 2005-07-0038

Bréf bæjarstjóra dags. 12. ágúst sl. með tillögu um að Ísafjarðarbær nýti ekki forkaupsrétt að Skólagötu 6 á Suðureyri. Áður hefur bæjarráð samþykkt lóðarleigusamning vegna sömu fasteignar.

Bæjarráð samþykkir að hafna forkaupsrétti.

6. Félagsmálaráðuneyti, gjaldtaka vegna ferðaþjónustu fatlaðra. 2005-08-0023

Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dags. 8. ágúst sl. þar sem ráðuneytið ítrekar þær reglur er gilda um gjaldtöku sveitarfélaga vegna ferðaþjónustu fatlaðra.
Ráðuneytið óskar eftir því að þau sveitarfélög er sinna ferðaþjónustu fatlaðra fari yfir þær reglur er um aksturinn gilda þannig að þær séu í samræmi við gildandi lög.

Bæjarráð telur þörf á að endurskoða reglur Ísafjarðarbæjar um ferðaþjónustu fatlaðra og vísar bréfi félagsmálaráðuneytis til félagsmálanefndar og óskar eftir tillögu að reglum og gjaldskrá í samræmi við það sem kemur fram í bréfi ráðuneytisins.

7. Byggingarfulltrúi, breyting á deiliskipulagi á Tunguskeiði.

Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 11. ágúst sl. með ósk um staðfestingu bæjarráðs á tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir hluta af Tunguskeiði. Breytingin tekur til færslu á Tungubraut um 33 metra til norðurs, stækkun lóðarinnar að Skeiði 1 um 942 fermetra og að heimilt verður að reisa og reka sjálfsafgreiðslustöð fyrir eldsneyti innan lóðarinnar. Tillagan var samþykkt í bæjarstjórn 7. apríl 2005 og var auglýst samtímis viðeigandi breyting á aðalskipulagi. Sú aðalskipulagsbreyting hefur nú verið staðfest af ráðherra, auglýst í B-deild stjórnartíðinda og öðlast gildi.
Tillagan var auglýst í samræmi við skipulags- og byggingarlög og engin athugasemd var gerð við deiliskipulagstillöguna.

Bæjarráð samþykkir breytingu á deiliskipulagi fyrir hluta af Tunguskeiði.

8. Byggingarfulltrúi, skipting lóðar að Ísafjarðarvegi 6, Hnífsdal. 2005-06-0089

Lagt fram bréf byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar dags. 11. ágúst sl. Í bréfinu kemur fram að byggingarfulltrúi telur mögulegt að skipta lóðinni upp í þrjár lóðir út frá heildarstærð.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til viðræðna við eiganda Ísafjarðarvegar 6 um möguleg kaup Ísafjarðarbæjar á fasteigninni.

9. Byggðakvóti 2004/2005 og ný úthlutun 2005/2006, bréf bæjarstjóra og bréf sjávarútvegsráðuneytis. 2005-06-0041

Lagt fram bréf bæjarstjóra dags. 12. ágúst sl. þar sem skýrt er frá innheimtu Ísafjarðarbæjar á skýrslum frá þeim er fengu byggðakvóta úthlutað í samræmi við samþykktar reglur um úthlutun Ísafjarðarbæjar 2004/2005.
Einnig er fjallað um nýja úthlutun sem er framundan og lagt fram bréf sjávarútvegsráðuneytis dags. 5. ágúst sl., auglýsing til sveitarstjórna um úthlutun byggðakvóta 2005, reglugerð nr. 722/2005 um úthlutum byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006 og úthlutun ráðuneytis á 4.010 tonna byggðakvóta dreift á sveitarfélög.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:25

 

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus Valdimarsson

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.