Félagsmálanefnd - 329. fundur - 25. júní 2009

Árið 2009, þann 25. júní kl. 16:10 kom félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar saman í fundarsal bæjarstjórnar, Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.


Mætt voru: Gísli H. Halldórsson, formaður, Hrefna R. Magnúsdóttir, Rannveig Þorvaldsdóttir og Ásthildur Gestsdóttir. Bryndís Birgisdóttir mætti sem varamaður fyrir Elínu Halldóru Friðriksdóttur.  Jafnframt sátu fundinn Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar og Anna Valgerður Einarsdóttir, ráðgjafi á Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.


Margrét Geirsdóttir ritaði fundargerð.


 


Þetta var gert:



1. Framtíðarskipulag á Hlíf og hlutverk forstöðumanns.  2009-06-0044.


Rætt um framtíðarskipulag á Hlíf og hlutverk forstöðumanns.  Félagsmálanefnd leggur áherslu á að unnið verði að skipulagi og kostnaðarskiptingu á Hlíf.  Þeirri vinnu verði lokið fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2010 og unnin í samstarfi við hagsmunaaðila. 


Eftirtaldir sjö einstaklingar sóttu um starf forstöðumanns Hlífar/Tjarnar- þjónustuíbúða aldraðra í Ísafjarðarbæ:  Bergvin Eyþórsson, Gunnar Albert Arnórsson, Hafsteinn Sverrisson, Jón Bjarni Jónsson, Maron Pétursson, Stefán Dan Óskarsson og Torfi Jóhannsson.  Félagsmálanefnd tilnefnir Hrefnu R. Magnúsdóttur, sem fulltrúa sinn í viðtöl við umsækjendur.



2. Búsetuþjónusta fyrir geðfatlaða.  2009-06-0056 / 2009-06-0057.


Lögð fram bréf frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum dags. 5. og 12. júní 2009.  Í fyrra bréfinu er yfirlit yfir rekstur búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða á Hlíðarvegi 3, Ísafirði, fyrir árið 2008.  Rekstrarafgangur var kr. 171.028,-.  Í seinna bréfinu eru tilkynntar breytingar á opnunartíma á skrifstofu/starfsmannaaðstöðu að Hlíðarvegi 3 á Ísafirði.  Lokað verði á kvöldin og um helgar.  Frekari liðveisla til þeirra einstaklinga sem þar búa verði veitt inn á heimili þeirra frá kl. 08:00-16:00 á daginn.  Samkvæmt mati sem lagt var til grundvallar sameiginlegri umsókn Ísafjarðarbæjar og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum í desember 2005 var gengið út frá að veitt yrði þjónusta á tímabilinu 09:00-13:00 og frá 17:00-23:00 alla virka daga og um helgar frá kl. 11:00-23:00.  Að auki var gert ráð fyrir allt að fimm næturvöktum í mánuði, starfsmannafundum og yfirvinnu vegna vaktstjórnar.  Því er um verulega þjónustuskerðingu að ræða sem mun koma illa niður á notendum.  Það er mat starfsmanna á Skóla- og fjölskylduskrifstofu, af fenginni reynslu af þjónustu við geðfatlaða,  að þjónustan nýtist best seinnipart dags, á kvöldin og um helgar. 


Félagsmálanefnd gerir athugasemdir við einhliða ákvörðun Svæðisskrifstofu, sem tekin er án samráðs við samstarfsaðilann, Ísafjarðarbæ og er ekki í neinu samræmi við þær hugmyndir sem samþykktar voru og veitt var fjármagn til á áðurnefndum forsendum. 


Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar óskar eftir greinargerð með rökstuðningi fyrir áðurnefndri ákvörðun frá  Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum.   



3. Fjárhagsaðstoð.  - Samanburður á milli áranna 2008 og 2009.


Lagðar fram upplýsingar um veitingu fjárhagsaðstoðar árið 2008 og fyrstu fimm mánuði ársins 2009.  Fyrstu fimm mánuði ársins 2008 var upphæð fjárhagsaðstoðar kr. 1.932.832,-, en fyrstu fimm mánuði ársins 2009 kr. 3.494.761,-.  Hækkunin nemur 80,1%.   Fleiri hafa átt rétt á fullri fjárhagsaðstoð fyrstu fimm mánuði ársins 2009 en á sama tímabili árið 2008.



4. Fylgjum hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni!


Lagt fram til kynningar ódagsett bréf ásamt veggspjaldi og póstkortum frá félags- og tryggingamálaráðherra og Mannréttindaskrifstofu, þar sem sagt er frá því að hinn 9. júní s.l. hafi verið kynntar niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til mismununar á Íslandi, jafnframt því að sérstöku átaki gegn mismunun Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni! var formlega ýtt úr vör.  Könnunin og átakið eru styrkt af Progress-áætlun Evrópusambandsins, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Þróunarsjóði innflytjendamála. 



5. Trúnaðarmál.


 Trúnaðarmál rædd og færð til bókar í trúnaðarmálamöppu félagsmálanefndar.


Ákveðið var að næsti fundur félagsmálanefndar verður haldinn um mánaðarmót ágúst-september 2009.


Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:30.


Gísli H. Halldórsson, formaður.


Bryndís Birgisdóttir.


Rannveig Þorvaldsdóttir.


Hrefna R. Magnúsdóttir.


Ásthildur Gestsdóttir.         


Margrét Geirsdóttir, forstöðum. Skóla- og fjölsk.skr.


Anna Valgerður Einarsdóttir, ráðgjafi Skóla- og fjölsk.skr.



Er hægt að bæta efnið á síðunni?