Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 18

Dagbók bæjarstjóra dagana 29. apríl-5. maí 2024.

Vorverkin fela í sér margvísleg verkefni auk þess að sópa og blása upp í hoppubelgina. Á bæjarskrifstofunni er talað um útboðsapríl enda er sumarið svo sannanlega tími framkvæmda og ýmissa verklegra verkefna.

Ísafjarðarbær fékk tvo styrki úr Fiskeldissjóði, vonandi í síðustu úthlutun sjóðsins en í frumvarpi um lagareldi sem nú til umfjöllunar á Alþingi er gert ráð fyrir að fallið verði frá þessu fyrirkomulagi og að sjókvíaeldissveitarfélög fái fjármuni til sín beint án þess að sitja sveitt við að skrifa umsóknir í von um að fá styrk. Mjög gott mál. Þetta eru góð verkefni innviðaverkefni sem hlutu brautargengi í ár, fráveitan á Þingeyri og viðbygging við verknámshús við MÍ.

Ísafjarðarbær fékk líka styrk frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða í Valagil í Álftafirði. Mörgum þykir það sérstakt að Ísafjarðarbær hafi fengið styrk í verkefni í Súðavíkurhreppi en Ísafjarðarbær er landeigandi í botni Álftafjarðar og verkefnið er að sjálfsögðu unnið í góðu samstarfi við okkar góðu nágranna í Súðavík.

Framlagning ársreiknings má segja að sé eitt af vorverkunum, en hann var lagður fram í vikunni. 119 milljón króna afgangur varð af rekstri Ísafjarðarbæjar á síðasti ári. Við höfðum gert ráð fyrir að skila betri árangri en 110 m.kr. viðbótarframlag til lífeyrissjóðsins Brúar hafði neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Allt er þetta í rétta átti og fjárhagurinn er að styrkjast en afkoman var neikvæð um 110 m.kr árið 2022.

Með ársreikningnum fylgdi ársskýrsla ársins 2023 sem er nýlunda og er ætlað að varpa á ljósi á helstu verkefni síðasta árs. Það var margt mjög jákvætt í ársreikningnum. Skuldahlutfallið er að lækka, það var 138,8% árið 2022 en er 133,5 % árið 2023. Skuldahlutfallið hjá A-hluta er 121,8% en var 124,7% árið 2022. Skuldaviðmið A og B hluta er 86,5% og 81,1% fyrir A-hluta. Veltufé frá rekstri er að aukast sem um munar á milli ára sem styrkir getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdum og öðrum skuldbindingum.

Sveitastjórar í heimsókn í Múlaþingi. Hópur fólks stendur úti, fyrir aftan þau er göngustígur, grasflötur og fjall.

Ég sótti sveitastjóramót í Múlaþingi í vikunni ásamt fjölmörgum öðrum framkvæmdastjórum sveitarfélaga. Þetta var virklega fróðlegt og skemmtilegt. Fengum góða fræðslu auk þess að heimsækja fyrirtæki og stofnanir. Það er svo hollt að sjá og heyra hvernig aðrir gera hlutina og sérstaklega þótti mér erindi Björns Ingimarssonar bæjarstjóra Múlaþings og gestgjafa okkar áhugavert en hann sagði okkur frá heimastjórnum og reynslu þeirra af þeim. Svona mót eru líka svo góð til að styrkja tengslanetið og kynnast viðfangsefnum annarra sveitarfélaga.

Annars vil ég óska nýjum bæjarfulltrúum í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar til hamingju með kjörið og ég hlakka til samstarfsins. Spennandi tímar framundan hjá þeim að móta nýtt sveitarfélag.